Bor­un eft­ir heitu vatni í Götu hætt

Veit­ur hafa nú hætt bor­un í landi Götu við Lauga­land. Mark­mið bor­un­ar­inn­ar var að afla heits vatns og auka þannig nýt­an­leg­an forða fyr­ir Rangár­veit­ur er þjóna Rangárþing­um og Ása­hreppi að hluta.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Veit­um. 

Upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir að bor­hol­an yrði 1.800 m djúp en ákveðið var að dýpka hol­una í von um að hitta á góðar vatnsæðar. Var borað niður á 1.855 m dýpi en ár­ang­ur hef­ur ekki verið í takt við vænt­ing­ar og nú­ver­andi aðstæður bjóða ekki upp á frek­ari bor­un á svæðinu. Veit­ur munu gera mæl­ing­ar á hol­unni og taka ákv­arðanir um frek­ari forðaöfl­un fyr­ir Rangár­veit­ur í kjöl­farið.

Áður hafði verið greint frá því í síðustu viku að skort­ur yrði á heitu vatni í Rangárþing­um og Ása­hreppi. Sund­laug­arn­ar á Laugalandi, Hellu og Hvols­velli hafa verið lokaðar í rúm­ar tvær vik­ur og verða það eitt­hvað áfram.  

Nú er staðan sú að vet­ur­inn er skoll­inn á og notk­un á heitu vatni eykst sam­hliða því. Veit­ur þurfa því að gang­setja þá holu sem hvíld var meðan á bor­un stóð. Bú­ast má við að nokkra daga taki að ná jafn­vægi í rekstri veit­unn­ar. Á meðan verða sund­laug­ar lokaðar og hita­stig vatns­ins lægra hjá íbú­um á jaðarsvæðum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?