Frá göngu Ferðafélags Rangæinga á Þríhyrning 2022
Frá göngu Ferðafélags Rangæinga á Þríhyrning 2022

Snemma árs 2022 var Ferðafélag Rangæinga stofnað í því augnamiði að hvetja „fólk á öllum aldri til útivistar í hinu fagra Rangárþingi“ líkt og segir á glæsilegri heimasíðu félagsins: www.ffrang.is. Að stofnuninni komu um tvöhundruð göngugarpar og fyrsta starfsárið tóku um sexhundruð manns þátt í gönguferðum á vegum félagsins.

Ágúst Sigurðsson, forseti félagsins, er að vonum brattur (fjallbrattur mætti ímynda sér) yfir velgengninni. Áhugi á félagsaðild hefur verið mikill og þátttaka í göngunum góð. Að sögn Ágústar er lagt upp með að fara hæfilega göngutúra sem henta breiðum hópi fólks og tvinna saman hreyfingu og örlítinn fróðleik, til dæmis þegar umhverfi Landrétta var skoðað. Er það í samræmi við eitt meginmarkmið félagsins að „stuðla að ferðalögum og almennri lýðheilsu á félagssvæðinu auk þess að styðja almennt við og auka umhverfisvitund og hlúa að menningararfi svæðisins.“ (úr textanum Um okkur af heimasíðu félagsins).

Og félagsmenn hafa ekki slegið slöku við. Á þessu eina og hálfa ári frá stofnun hefur félagið meðal annars staðið fyrir göngu á Selsundsfjall, Þríhyrning, Bjólfell, Einhyrning, göngu niður að Árbæjarfossi, um Vestmannaeyjar, frá Djúpósstíflu niður í Þykkvabæ, í Þórsmörk, Landmannalaugum og á fleiri stöðum að Fjallabaki ásamt hjólaferð um Markarfljótsaura og Tumastaðaskóg. Lagt hefur verið upp úr að hafa gönguleiðirnar þannig að stór og fjölbreytilegur hópur geti tekið þátt, fremur en þröngur og sérhæfður hópur frárra fjallageita. Í kvöldgöngu á Vatnsdalsfjall í ágústbyrjun voru göngugarpar á aldrinum tveggja til áttatíu og eins árs, segir Ágúst og bætir við að allir hafi komist á leiðarenda heilir og sælir.

Starfsemi félagsins hefur verið mest á vorin og snemmsumars en síðan aftur á haustin með örlitlu hléi yfir hásumarið. Um þessar mundir heldur félagið því göngu sinni áfram en unnið er að ferðaáætlun ársins 2024.

Þá virðast göngugarpar ekki óttast að verða uppiskroppa með gönguleiðir þrátt fyrir þennan dugnað.

„Það eru svo margir möguleikar í boði hér á okkar svæði og óþrjótandi hugmyndir að skemmtilegum gönguferðum við allra hæfi. Við erum svo að hefja undirbúning fyrir göngudagskrá næsta árs sem ætti að verða tilbúin í nóvember. Nú erum við reynslunni ríkari eftir þessi fyrstu tvö ár, margar hugmyndir í farvatninu og við ætlum að halda ótrauð áfram enda áhuginn mikill og möguleikarnir hér í okkar dásamlega Rangárþingi óþrjótandi. Við erum heppin með að í hópnum eru fróðir og duglegir umsjónarmenn og fararstjórar sem jafnvel eiga það til að bresta í söng og flytja ljóð af fjallatindum ef svo ber undir.“

Af lýsingum Ágústar að dæma er svo skemmtilegt að vera göngugarpur í Ferðafélagi Rangæinga að sú sem hér ritar hyggur á inngöngu hið fyrsta. Það verður þá að koma í ljós hvort lágfættir Flóamenn eigi erindi í hóp tindilfættra afkomenda Hallgerðar Langbrókar eða verði skildir eftir í einhverri mýrinni þar sem þeir eiga helst heima.

Aðrir upprennandi göngugarpar geta slegist í hópinn með því að fylla út eyðublað á vefslóðinni: https://www.ffrang.is/is/fyrirtaekid/gerast-felagi. Félagið er deild innan Ferðafélags Íslands og aðildinni fylgja því sömu fríðindi og almennt fylgja aðild að FÍ. Að því sögðu eru bæði félagar og ófélagar velkomnir í styttri og lengri göngur á vegum félagsins.

Viðtalið tók Fanney Hrund Hilmarsdóttir, Fjarkastokki.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?