Miðjan á Hellu.
Miðjan á Hellu.

Í langan tíma hafa staðið yfir samskipti milli Festi hf, sem rekur matvörubúðina Kjarval á Hellu, og Samkeppniseftirlitsins. Þrátt fyrir að sveitarfélagið sé ekki beinn aðili að þessu máli þá hefur allan tímann verið leitað eftir upplýsingum um stöðu málsins og ótal fundir, símtöl og önnur samskipti átt sér stað milli fulltrúa sveitarfélagsins, stjórnar fasteignafélagsins sem rekur Miðjuna á Hellu og starfsfólks samkeppniseftirlitsins, og ekki síður forstjóra og annars forsvarsfólks Festi hf. Vel rekin matvörubúð með góðu vöruúrvali og samkeppnishæfu verði skiptir gríðarlegu máli á stað eins og Hellu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum benda allar rekstrartölur til þess að Kjarval á Hellu gangi vel og Hella sé eftirsóknarverður verslunarstaður með trygga viðskiptavini. Það hljóti því að vera mjög áhugavert að reka þar matvöruverslun. Eftir því sem best verður skilið þá gerði Festi hf sátt við Samkeppniseftirlitið um að selja frá sér verslunina á Hellu vegna einokunaraðstöðu á dagvöruverslun í Rangárvallasýslu þegar Festi hf og N1 runnu saman í eina sæng. Upphaf málsins má rekja til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2019, sbr. einnig fréttatilkynningu eftirlitsins 18. febrúar 2020. Þar kemur fram að skv rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samruna N1 og Festi hafi m.a. komið í ljós að verslanir Festi, Krónan á Hvolsvelli og Kjarval á Hellu, og N1 á Hvolsvelli yrðu nánast með einokunarstöðu í sölu dagvara á Hellu og Hvolsvelli eftir samrunann.


Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. umræddrar sáttar kemur fram að verslunin Kjarval skuli aðeins seld til aðila sem sé til þess fallinn og líklegur til að veita umtalsvert samkeppnislegt aðhald við sölu dagvara á svæðinu. Skal kaupandi vera óháður og ekki í neinum tengslum við N1. Einnig skal kaupandi samkvæmt þessu skilyrði sáttarinnar búa yfir nægjanlegri þekkingu, fjárhagsstyrk og hvata til þess að líklegt sé að hann geti til bæði skemmri og lengri tíma veitt umtalsvert samkeppnislegt aðhald.


Nú höfum við hér í Rangárþingi ytra fylgst með því að Festi hf hefur gert einhverjar tilraunir til að selja frá sér verslunina en greinilegt er að í engu tilfelli hefur þar ofangreint skilyrði 3. mgr. 12. gr. umræddrar sáttar verið uppfyllt.


Nú er svo komið að við hér í Rangárþingi ytra teljum nóg komið. Annað hvort fær Festi hf leyfi til þess að reka hér áfram sína ágætu verslun og þá gjarnan þannig að bætt verði í og opnuð hér Krónubúð eða þá að Festi hf snýr sér að því að selja Kjarvalsverslun sína hér á Hellu til aðila sem teljast samkeppnisaðilar og hafa til þess nægjanlegt afl. Þessir aðilar eru teljandi á fingrum annarar handar hérlendis. Gangi þetta hvorugt eftir þá þurfa Festi hf og Samkeppniseftirlitið einfaldlega að setjast niður og endurskoða þessa sátt sem gerð var því varla er hægt að hugsa sér verri útkomu fyrir samkeppni um dagvöruverslun í Rangárvallasýslu en þá að loka einu matvörubúðinni í öðru kauptúninu. Sú útkoma hlýtur reyndar að teljast óhugsandi því þar með er fyrrgreind sátt milli Festi hf og Samkeppniseftirlitsins fyrst þverbrotin.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?