Dagur leikskólans 6.febrúar

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur á hverju ári þann 6. febrúar. Samstarfsaðilar um Dag leikskólans eru Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra. Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt, eru hvattir til að halda Degi leikskólans á lofti og fylgjast vel með starfsemi leikskólanna þennan dag.

Þar sem Dagur leikskólans 2017 verður haldinn hátíðlegur í tíunda sinn verður dagurinn helgaður því góða starfi sem fram fer í leikskólum landsins og dregið fram það sem hefur áunnist sl. ár t.d. með kynningarátakinu Framtíðarstarfið.

Heklukot

Mánudaginn 6. febrúar verður opið hús í Heklukoti fyrir gesti og gangandi frá kl.14-16 og hvetjum við foreldra, forráðamenn og alla velunnara leikskólans að kíkja í heimsókn til okkar, sjá það frábæra starf sem hefur verið í gangi þennan vetur, þiggja kaffisopa og spjalla við nemendur, starfsmenn og gesti.

Leikskólinn á Laugalandi

Að tilefni að degi leikskólans ætla börn og starfsmenn í Leikskólanum Laugalandi að taka á móti öfum og ömmum leikskólabarnanna mánudaginn 6. febrúar. Tilgangurinn er að kynna þessum hópi starf leikskólans og sjá hvað barnabörnin eru að gera í skólanum. Börnin hafa bakað bollur og verður boðið upp á kaffi frá klukkan 13:30 -15:30.

Vonumst til að sjá sem flesta.
Með vinsemd og virðingu.
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?