01. október 2025
Dagur Sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu verður haldinn í 19. sinn laugardaginn 11. október í Reiðhöllinni Skeiðvangi á Hvolsvelli.
Dómarar frá RML koma og dæma lömbin og hefja þeir störf kl. 10:00 en hin eiginlega sýning og röðun í sæti hefst kl. 13:00
Keppt verður í flokki hyrndra og kollóttra hrúta og hyrndra og kollóttra gimbra. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir bestu gripina, en Gunnhildur Myndlist / ART mun mála platta fyrir efstu sætin.
Þá eru farandgripir veittir fyrir bestu fimm vetra ána, besta veturgamla hrútinn og ræktunarbú ársins og miða öll þau verðlaun við niðurstöður ársins 2024 samkvæmt upplýsingum frá RML.
Heimilt er að koma með til dóms:
- Allt að 5 hyrnda hrúta
- Allt að 5 kollótta hrúta
- Allt að 5 kollóttar gimbrar
- Allt að 5 hyrndar gimbrar
- frá hverjum bæ og kostar dómur á hvert lamb 1.000 kr.
Við óskum eftir að fólk komi með reiðufé til að ganga frá greiðslu. Dóminn verður hægt að fá og skrá inn í Fjárvís í lok dags. Nefndin gerir það ekki.
Bændur eru sömuleiðis hvattir til að koma með litrík lömb og taka þátt í keppni um litfegursta lambið. En einnig er veittur fallegur platti til eignar fyrir það lamb sem vinnur litakeppnina.
Happdrætti verður með fjölda glæsilegra vinninga og kjötsúpa í boði SS.
Hægt er að koma með vörur til að selja og þeir sem það vilja, vinsamlega hafi samband við Huldu á netfangið huldauppspuni@gmail.com
Eins eru fyrirtæki sem vilja kynna sig velkomin.
Hlökkum til að eiga góðan dag með sauðfjárbændum og áhugafólki um sauðfé laugardaginn 11. október á Hvolsvelli.
Nefnd Dags Sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu.