Enduro fyrir alla að Hellum í Landsveit, Rangárþingi ytra
Enduro fyrir alla að Hellum í Landsveit, Rangárþingi ytra

Laugardaginn 12. september var keppnin Enduro fyrir alla haldin í annað skipti, í þetta sinn að Hellum, Landsveit, Rangárþingi ytra.

Keppnin snýst um að keppendur á svokölluðum Enduro-mótorhjólum ljúki samtals 80 km torfærubraut á sem styðstum tíma. Það gefur augaleið að þetta er ekki auðvelt verk, þar sem þetta reynir ekki bara á færni ökumanna undir stýri, heldur þol og styrk þeirra ásamt áreiðanleika mótorhjólsins.

Þegar keppnin hefst standa allir keppendur 10 metrum frá sínu hjóli. Svo er ræst og þá taka þeir á sprett að hjólunum, setja þau í gang og bruna af stað í einni kös gegnum flöskuháls sem leiðir þá að lokum inn á braut. Þegar keppni er hafin kemst fljótt taktur á hana þannig það líða aðeins nokkrar sekúndur milli þess sem nýr keppandi kemur brunandi í gegnum tímatökuhliðið. Þar geta áhorfendur svo stillt sér upp og hvatt keppendur áfram. Hasarinn getur orðið mikill og er þetta því mikið sjónarspil fyrir unga sem aldna.

Fyrsta umferð ársins var haldin 15. Ágúst á Jaðri þar sem 65 keppendur hófu keppni. Önnur umferð var haldin 12. September síðastliðinn með 117 keppendur. Áhugi á Enduro íþróttinni hefur aukist töluvert í sumar og þess má geta, að yfir 50% keppenda hafa aldrei keppt áður í íþróttinni. Aðstandendur Enduro fyrir alla eru því mjög bjartsýnir á framtíð íþróttarinnar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?