Fánamál vegna erfidrykkja á Hellu

Undanfarin misseri hefur komið upp umræða og viss núningur vegna flöggunar íslenska fánans á bakka Rangár á Hellu þegar útför er við Oddakirkju og erfidrykkja á Hellu.

Núningurinn hefur helst snúið að því að flaggað sé fyrir suma en ekki aðra og hver eigi að sinna flöggun í þessum tilfellum.

Verklagið hefur verið óskýrt og engar fastmótaðar boðleiðir varðandi að láta vita og óska eftir að flaggað sé. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins hafa stundum verið kallaðir út til að flagga við þessi tilefni en misbrestur hefur verið á að slíkar beiðnir berist þeim. Þess vegna kallaði forstöðumaður þjónustumiðstöðvar eftir því að verklagið yrði tekið til formlegrar skoðunar.

Erindið var upphaflega sent íbúaráði Rangárþings ytra sem bókaði eftirfarandi:

Íbúaráð leggur til að flöggun íslenska fánans á stöngum sveitarfélagsins vegna jarðarfara verði á ábyrgð aðstandenda vegna jafnræðissjónarmiða. Lagt er til að fáni verði aðgengilegur í íþróttamiðstöðinni á Hellu þar sem aðstandendur geta nálgast hann vegna útfara í sveitarfélaginu.

Markaðs-, menningar og jafnréttismálanefnd tók erindið einnig fyrir og tók undir bókun íbúaráðs.

Í kjölfarið var málið sent til fullnaðarafgreiðslu hjá sveitarstjórn sem tók undir bókanir nefndanna og var niðurstaðan því svohljóðandi tillaga sveitarstjóra:

Sveitarstjóri vill því leggja til að flöggun á bakka Rangár á Hellu verði á ábyrgð aðstandenda í samstarfi við þá aðila sem koma að útförinni (…). Á það er að líta að (…) íþróttasalir hafa verið leigðir út án endurgjalds vegna jarðarfara heimamanna til erfidrykkju. Nánast undantekningarlaust hafa kvenfélögin séð um erfidrykkjur og ekki er óeðlilegt að slík þjónusta geti verið hluti af því verki sem aðstandendur kaupa af kvenfélögunum eða öðrum aðilum (…). Fánar myndu verða aðgengilegir í afgreiðslu sundlaugarinnar á Hellu, íþróttahúsinu í Þykkvabæ og íþróttamiðstöðinni á Laugalandi. Starfsfólk sveitarfélagsins sem er að störfum í viðkomandi mannvirkjum myndu síðan afhenda fána og veita upplýsingar eftir þörfum. Ekki er hægt að mæla með því að starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar á Hellu sjái um flöggun fána á Hellu. Þegar aðeins tveir starfsmenn eru á vakt er vart réttlætanlegt að senda starfsmann í slík verkefni ef eitthvert óhapp kemur upp í íþróttamiðstöðinni, þar sem okkur ber að vera með tvo starfsmenn á vaktinni.

Þetta var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 9. apríl sl. og tekur strax gildi. Fánar verða aðgengilegir í íþróttamiðstöðvum sveitarfélagsins þar sem aðstandendur eða þeir aðilar sem sjá um útfarir og erfidrykkjur geta nálgast þá.

Minnisblað um málið má lesa í heild sinni í fundargerð sveitarstjórnar með því að smella hér.