Fjárhagsáætlun samþykkt í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða fjárhagsáætlun fyrir árin 2026-2029 á fundi sínum 10. desember 2025. Góð samvinna var á milli kjörinna fulltrúa við gerð áætlunarinnar.

Sveitarstjórn hefur við fjárhagsáætlunargerðina reynt að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf og miða almennt við forsendur kjarasamninga. Þá var tekin ákvörðun um að lækka álagningarhlutfall A-hluta fasteignagjalda úr 0,28 í 0,265, C-hluta fasteignagjalda úr 1,45 í 1,40 og fráveitugjalda úr 0,20 í 0,18 til að koma til móts við fasteignaeigendur vegna hækkunar á fasteignamati.

Varðandi lykiltölur úr fjárhagsáætlun 2026 er gert ráð fyrir að heildartekjur Rangárþings ytra (A og B hluta) árið 2026 nemi alls 4.472 mkr. Rekstrargjöld eru áætluð 3.681 mkr. og þar af reiknaðar afskriftir 219 mkr. Fjármagnsgjöld eru áætluð 224 mkr. Gert er ráð fyrir fjárfestingu að fjárhæð 1.011 mkr. Skuldaviðmið verði 70% og skuldahlutfall 95,5%. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 346 mkr. Fjárhagsáætlunina má nálgast með því að smella hér.  Forsendurskjal fjárhagsáætlunar má nálgast með því að smella hér.

Einnig er hægt að fletta skjölunum neðst í þessari frétt.

Áfram er gert ráð fyrir heimgreiðslum og hlutaheimgreiðslum sem valkosti fyrir foreldra barna á aldrinum 12–24 mánaða og leikskólagjöld eru með þeim lægstu á landinu. Þá verði tekjutengdir afslættir til elli- og örorkulífeyrisþega hækkaðir töluvert umfram verðlagsþróun. Einnig verður tekið upp það nýmæli að veita fyrstu kaupendum íbúðarhúsnæðis styrk á móti fasteignagjöldum.

Allt þetta gerir Rangárþing ytra að ákjósanlegum stað til að búa á.

Á næsta ári verður haldið áfram með að klára byggingu nýs grunnskóla á Hellu og bygging nýs leikskóla á Hellu kemst á fullt skrið en þessi tvö verkefni eru stærsta framkvæmd sveitarfélagsins frá stofnun þess. Ráðgert er því að taka í notkun annan hluta grunnskólans fyrir vorið og að leikskólinn, sem er þriðji áfangi verksins, verði fokheldur í lok árs og tekinn í notkun á árinu 2027. Þá er gert ráð að halda áfram með uppbyggingu á íþróttasvæðinu á Hellu og fara í miklar viðhaldsframkvæmdir á Laugalandi á næsta ári.

Gríðarleg uppbygging er í sveitarfélaginu öllu og því mikil tækifæri fram undan á nýju ári.