Hátíð í fullum gangi - dýrmætt að eiga stórt íþróttahús sem rúmar mörg hundruð gesti og hoppukastala…
Hátíð í fullum gangi - dýrmætt að eiga stórt íþróttahús sem rúmar mörg hundruð gesti og hoppukastala þegar blautt er í veðri.

17. júní var haldinn hátíðlegur á Hellu venju samkvæmt. Dagskráin byrjaði við Dvalarheimilið Lund þar sem fulltrúar hestamannafélagsins Geysis mættu með hesta og teymdu undir krökkunum. Þar var verðandi 10. bekkur einnig með blöðrusölu og skrúðgangan skundaði svo af stað kl. 13:30.

Fyrir göngunni fóru lögreglubíll og glæsileg lúðrasveit undir stjórn Söndru Rúnar Jónsdóttur, skólastjóra Tónlistarskóla Rangæinga. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að gera skrúðgönguna sérlega hátíðlega.

Gangan var heldur blaut en vaskir Rangæingar og vinir létu það ekki á sig fá og það var dágóður hópur sem marseraði sem leið lá að íþróttahúsinu á Hellu þar sem hátíðardagskráin fór fram.

Verðandi 10. bekkur og foreldrar sáu um hátíðarkaffið og þau voru einnig með sjoppu til fjáröflunar fyrir hópinn. Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarfélagsins, flutti hátíðarræðu, Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir frá Lambhaga flutti ræðu nýstúdents og fjallkonan í ár var Therese Sundberg.

Dansnemendur á dansnámskeiði Helgu Sunnu sýndu dansatriði, leikfélag Hveragerðis mætti með atriði úr ávaxtakörfunni og tónlistarflutningur styrkþega úr menningarsjóði Rangárþings ytra sló botninn í dagskrána en það voru þau Dana Ýr Antonsdóttir, Einar Þór Guðmundsson og Sólrún Bragadóttir sem tóku lagið.

Hoppukastalarnir voru auðvitað á sínum stað og voru þeir mjög vel nýttir af börnum á öllum aldri.

Sveitarfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem komu að hátíðinni og til allra góðu gestanna sem mættu.

Smellið hér til að skoða myndir frá deginum