Nemendur úr leik-, grunn- og tónlistarskóla fluttu tvö lög úr Ávaxtakörfunni við frábærar undirtekti…
Nemendur úr leik-, grunn- og tónlistarskóla fluttu tvö lög úr Ávaxtakörfunni við frábærar undirtektir viðstaddra. Kennarar úr Tónlistarskóla Rangæinga sáu um glæsilegan undirleik. Þetta var sannarlega hápunktur hátíðarinnar.

Það var gleði og eftirvænting í lofti á Hellu meðal nemenda og starfsmanna leik- tónlistar- og grunnskólans í morgun þegar efnt var til sérstakrar skólahátíðar í tilefni af upphafi framkvæmda við uppbyggingu skólasvæðisins. Fjöldi íbúa tók einnig þátt í þessari stuttu en afar skemmtilegu athöfn með nemendum og starfsfólki skólanna en í kjölfarið hefur verið opnuð kynning á verkefninu á efri hæð Íþróttahússins fyrir alla áhugasama. Sú kynning mun standa fram á vorið og eru allir velkomnir.

Björk Grétarsdóttir oddviti og stjórnarformaður Odda bs flutti stutt ávarp og Birgir Teitsson og Eyrún Margrét Stefánsdóttir arkítektar kynntu verkefnið. Þá undirrituðu Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri og Ólafur Einarsson forstjóri Þjótanda ehf verksamning fyrir 1. áfanga uppbyggingarinnar sem er einmitt að hefjast í dag. Þá fluttu nemendur úr leik-, grunn- og tónlistarskóla tvö lög úr Ávaxtakörfunni við frábærar undirtektir viðstaddra. Kennarar úr Tónlistarskóla Rangæinga sáu um glæsilegan undirleik. Þetta var sannarlega hápunktur hátíðarinnar. Að lokum mynduðu allir viðstaddir stóran hring og framkölluðu táknræna og minnisstæða kraftbylgju sem þær Björk Grétarsdóttir og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir sveitarstjórnarfulltrúar leiddu. Bylgjan endaði síðan hjá Ólafi Einarssyni verktaka og Tómasi Hauki Tómassyni forstöðumanni eigna- og framkvæmda sem ætla sér að nýta kraft bylgjunnar til að hefja framkvæmdir með farsælum og aflmiklum hætti.

Athöfnin var til að fagna og marka upphaf framkvæmdanna en verkefnið er búið að vera lengi í undirbúningi og mjög stór hópur fólks sem hefur komið þar að málum síðstu árin. Fyrstu skrefin voru stigin seinnipart ársins 2018 og fljótlega voru skipaðir sérstakir faghópar um byggingu nýs leikskóla á Hellu og aðstöðumál Grunnskólans á Hellu. Þessir hópar unnu gríðarlega mikilvægt undirbúningsstarf og skiluðu af sér sameiginlegri skýrslu um byggingu nýs leikskóla og stækkun grunnskólans á Hellu í upphafi árs 2020.

Í kjölfarið var skipaður sérstakur faghópur um þróun skólasvæðis á Hellu sem hefur haldið utan um verkefnið frá þessum tíma en haldnir hafa verið m.a. tveir íbúafundir um verkefnið á mismunandi stigum og öllum gögnum, fundargerðum og teikningum haldið til haga og birt á heimasíðu sveitarfélagsins. Þessir faghópar hafa verið skipaðir skólastjórum Odda bs, forstöðumönnum sviða hjá sveitarfélaginu, kennurum og starfsfólki úr leik-, grunn,- og tónlistarskóla, fulltrúum úr sveitarstjórn og öðru starfsfólki sveitarfélagsins auk aðkeyptra ráðgjafa. Gera má ráð fyrir að alls hafi komið að undirbúningi málsins með virkum hætti á ýmsum stigum allt að 40-50 manns enda mikilvægt að undirbúa þetta stóra framfaraverkefni vel.

Á fundi sveitarstjórnar þann 10.12.2020 lá fyrir verðkönnun meðal arkítektastofanna ALARK, VA-arkítekta og ARKÍS sem allar hafa töluverða reynslu af að hanna skóla og leikskóla en stofurnar voru fengnar til að gefa verð í undirbúning og frumdrög og aðstoð við að forma skólaverkefnið áfram. Tillaga faghóps um þróun skólasvæðis á Hellu var að ganga til samninga við ARKÍS um verkið og samþykkti sveitarstjórn það á fundi sínum þann 14.1.2021. Þann 20.4.2021 skilaði Arkís frumdrögum að skólasvæðinu í samræmi við þann samning sem gerður var. Um var að ræða frumdrög nýbygginga fyrir grunnskólann og leikskólann Heklukot á Hellu á formi greinargerðar og teikninga auk þess sem gróf kostnaðaráætlun fylgdi.

Í framhaldinu var gengið til samninga við ARKÍS um fullnaðarhönnun 1. áfanga þar sem unnið var eftir þessum frumdrögum. Samningur þess efnis var staðfestur af sveitarstjórn þann 10.6.2021. Fullnaðarhönnun 1. áfanga verkefnisins lá síðan fyrir frá ARKÍS arkítektum ásamt með útboðsgögnum þann 13.1.2022. Útboð jarðvinnuframkvæmda við 1. áfanga var síðan auglýst í framhaldinu og niðurstaða varðandi jarðvegsvinnu, lagnir og rif lá fyrir þann 18.2.2022 og í dag var gengið frá samningi við lægstbjóðanda sem er Þjótandi ehf og hefur þegar hafist handa við verkið. Þá var samið við Steypustöðina ehf um forsteyptar einingar og reisingu húsa í 1. áfanga.

Áfangi 1 verður byggður á árinu 2022 og mun hýsa miðstig grunnskólans. Næsta skref er þá að láta fullnaðarhanna 2. áfanga og byggja það á sömu frumdrögum og ARKÍS vann í upphafi og undirbúa útboð á lokafrágangi vegna 1. áfanga og er þessi vinna þegar komin vel á veg í undirbúningi.

Myndir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?