Frá sveitarstjóra

Frá sveitarstjóra 20. desember 2019

Fjárhagsáætlun

Á sveitarstjórnarfundi þann 12. desember sl. fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Áætlaðar heildartekjur samstæðu Rangárþings ytra árið 2020 nema alls 2.063 mkr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 1.782 mkr. og þar af reiknaðar afskriftir 128,9 mkr. Fjármagnsgjöld eru áætluð 86,7 mkr. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 194 mkr. 

Veltufé frá rekstri er 364,9 mkr. Í eignfærða fjárfestingu samstæðunnar verður varið 335,4 mkr. og afborgun lána 117,3 mkr. Gert er ráð fyrir nýrri lántöku að upphæð 110 mkr. á árinu 2020 vegna framkvæmda við vatnsveitu. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2020 alls 1.703 mkr og eigið fé 2.279 mkr. Framlegðarhlutfall 2020 er áætlað 19,9%, veltufjárhlutfall 2020 er áætlað 0,80 og  eiginfjárhlutfall 2020 er áætlað 0,57. Rekstrarjöfnuður þriggja ára skv. sveitarstjórnarlögum er áætlaður jákvæður um 535 mkr. Reiknað skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum fer niður í 66,5% á árinu 2020 og skuldahlutfallið niður í 82,6%. Við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar var gengið út frá því að gjaldskrár hækki ekki umfram 2,5% sem fellur að almennum áherslum stjórnvalda um lífskjarasamninga. Þessu var fylgt og í sumum tilfellum gengið mun lengra t.d. var ákveðið að hafa skólamötuneytin gjaldfrjáls. Þá ákvað sveitarstjórn einnig að lækka fasteignaskatt í A flokki þ.e. á íbúðir, íbúðarhús, jarðir, útihús og sumarbústaði úr 0,39% í 0,36%. Það er síðan til marks um góða samvinnu í sveitarstjórn Rangárþings ytra við undirbúning fjárhagsáætlunar 2020-2023 að áætlunin var samþykkt samhljóða.

Fjárfestingar

Segja má að á því ári sem nú er að líða hafi fjárfestingargeta sveitarfélagsins verið nýtt til hins ýtrasta. Fjárfestingar ársins innan A og B hluta voru rúmlega 512 milljónir kr sem teljast verður mikið í sveitarfélagi sem veltir tæpum 2 milljörðum kr en engin ný lán voru tekin á árinu. Þessu ber að fagna en samt er það nú svo að ekki er ráðlegt að spenna bogann með slíkum hætti á hverju ári. Við gripum hins vegar þau tækifæri sem féllu með okkur þetta árið enda margt sem brýnt var að hrinda í framkvæmd. Þannig festum við kaup á 5 nýjum íbúðum í jafnmörgum raðhúsum í Ölduhverfinu og tókst þannig að örva nýbyggingar á hagkvæmum minni íbúðum sem mikill skortur var á hér á Hellu. Á  þessu ári hafa reyndar risið 7 raðhúsalengjur og eru 5 þeirra komnar í notkun – samtals eru þetta 29 íbúðir. Sveitarfélagið lagði einnig til 12% stofnframlag á móti 18% hlut íbúðalánasjóðs til 4 leiguíbúða sem nú eru í byggingu á vegum Lundartúns hses sem ætlaðar eru tekjulágum eldri borgurum og öryrkjum. Þá má nefna m.a. framkvæmdir ársins við nýja leikskóladeild Heklukots, viðbyggingu Íþróttahúss á Hellu, gatnagerð í Ölduhverfi og við Guðrúnartún, nýjan veg um Oddabrú, framkvæmdir við fráveitu og vatnsveitu og endurnýjun tækjabúnaðar Þjónustumiðstöðvar.

Mikilvægir áfangar

Þann 17 desember sl. afhenti verktakinn Bjarni Sverrisson stjórn Brunavarna Rangárvallasýslu bs nýtt glæsilegt húsnæði að Dynskálum 49 á Hellu sem hýsa mun nýja framtíðar slökkvistöð Brunavarna Rangárvallasýslu á Hellu. Slökkvistöðin nýja er nú tilbúin til fullnaðarfrágangs og hefur útboð á þeim verkhluta nú verið auglýst og skal skila inn tilboðum fyrir 21. janúar 2020. Útboðið miðar við að heildarverklok verði 15. maí 2020 en um er að ræða fullnaðarfrágang þar sem á neðri hæð hússins verður tækjasalur auk snyrtinga og á efri hæð starfsmannarými auk skrifstofuaðstöðu. Verður þetta algjör bylting fyrir brunavarnir í héraðinu og leysir nýja stöðin af hólmi eldri aðstöðu sem er barn síns tíma og algjörlega ófullnægjandi miðað við þarfir samfélagsins í dag. Sveitarstjórn Rangárþings ytra ákvað síðan í síðustu viku að ganga að tilboði Brunavarna Rangárvallasýslu bs og kaupa gömlu slökkvistöðina á Hellu nú þegar hún losnar næsta sumar. Rangárþing ytra á þegar efri hæð þeirrar byggingar og þar er til húsa Tónlistarskóli Rangæinga. Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um nýtingu gömlu stöðvarinnar en vel þykir koma til greina að stækka aðstöðu Tónlistarskólans og koma upp litlum tónleikasal og bættu kennslurými á neðri hæðinni. Það eru sveitarfélögin þrjú í Rangárvallasýslu sem eru eigendur byggðasamlagsins um brunavarnir þ.e. Rangárþing ytra, Rangárþing eystra og Ásahreppur.

Þann 18. desember sl. lauk verktakinn Gunnar Gunnlaugsson hjá Mikael ehf á Höfn í Hornafirði við smíði hinnar nýju Oddabrúar sem teljast verður mikilvægur áfangi til að auka öryggi íbúa Rangárþings og bæta samgöngur í héraði. Risin er falleg og vel smíðuð brú og nú er næsta skref að sæta færis og flytja vatnsfarveginn undir hina nýju brú og ljúka við vegtengingar beggja megin. Ef vel viðrar ætti þessu að ljúka á næstu vikum og þá er þess ekki langt að bíða að hægt verði að hleypa umferð á þessa nýju leið. Það er sveitarfélagið Rangárþing ytra sem stendur að þessum vegabótum í góðu samstarfi við Vegagerðina.

Verkefni í farvegi

Framkvæmdum við stækkun Íþróttamiðstöðvarinnar á Hellu miðar vel áfram en það er Skeiðamaðurinn Ólafur Leifsson hjá Tré og Straumi ehf sem vinnur það verk með harðsnúnum vinnuflokki sínum. Viðbyggingin er risin og unnið að innréttingu beggja hæða en á efri hæðinni er gert ráð fyrir heilsurækt en niðri verður lítill fjölnota íþróttasalur auk rúmgóðrar áhaldageymslu. Verklok eru áætluð 1. Júní 2020 en líklega verður þó hægt að nýta a.m.k. hluta aðstöðunnar mun fyrr miðað við stöðu verksins nú. 

Hafnar eru framkvæmdir við stækkun Lækjarbotnaveitu en þar er verktaki Þjótandi ehf. Fyrsti áfanginn er bygging miðlunartanks í Hjallanesi en undirverktaki við smíðavinnu er Tré og Straumur ehf. Búið var að klára fyrstu steypu áður en vetrarveður brast á - en hlé er nú á framkvæmdum yfir köldustu vetrarmánuðina. Verkefnið er til þriggja ára með lokadag 3. áfanga þann 1. nóvember 2021.

Góðir áfangar hafa náðst í viðhaldsverkefnum við fasteignir á Laugalandi á síðustu misserum en þar hefur Trésmiðja Ingólfs ehf og Ámundi Loftsson hjá Einyrkja ehf unnið að endurbótum. Nú fyrir skemmstu lauk t.a.m. vinnu við endurnýjun þaks, gluggaskipti og klæðningu á framhlið gamla skólans sem nú hefur fengið útlit í sama stíl og nýrri byggingar staðarins. Þetta var orðið mjög aðkallandi en aðalframkvæmd næsta árs á Laugalandi eru gagngerar endurbætur á bílaplani.

Í haust lauk endurskoðun aðalskipulags fyrir Rangárþing ytra sem tekur til tímabilsins fram til 2028. Það er góður áfangi að ljúka þeirri miklu vinnu og ber að fagna. Ákveðin bylting varð í vinnu gagnvart vinnuferli við leyfisveitingar hjá Skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins fyrr á þessu ári þegar tekin var upp rafræn byggingagátt – s.k. OneRobot. Þar er sveitarfélagið að ríða á vaðið og taka upp skilvirkari vinnubrögð við þessa verkþætti en verið hafa til þessa. Nú stendur yfir vinna við umhverfismat vegna hins nýja deiliskipulags í Landmannalaugum sem tók gildi á þessu ári. Reikna má með að því ljúki næsta sumar eða haust og þá fyrst verður hægt að hefja langþráðar endurbætur við m.a. bílaplanið við Námskvísl sem allir eru sammála um að sé áríðandi verkefni.

Viðræður sveitarfélaga

Nú í desember hófust viðræður sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu og Vestur Skaftafellssýslu um kosti og galla sameiningar. Þessi vinna fer af stað ekki síst vegna þeirra boðuðu breytinga sem nú liggja í loftinu um að sett verði 1000 íbúa lágmark á stærð sveitarfélaga frá og með árinu 2026.  Sveitarfélögin hafa myndað verkefnahóp með þremur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi auk þess sem sótt verður um framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði við aðkeypta sérfræðivinnu vegna þessa. Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti fyrir sitt leyti að taka þátt í þessum viðræðum og tilnefndi Björk Grétarsdóttur oddvita, Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur og sveitarstjóra í verkefnishópinn fyrir sína hönd.

Mannauðsmál

Hvert ár eru alltaf einhverjar breytingar í starfsliði sveitarfélagsins - eins og gengur, en þó má segja að viss stöðugleiki sé almennt ríkjandi. Á köflum höfum við þó átt við nokkra manneklu að stríða á leikskólunum en það hefur til allrar lukku tekið stórum jákvæðum breytingum á síðustu mánuðum og því fögnum við mjög. Á Heklukoti hefur Rósa Hlín Óskarsdóttir staðið árvökul vaktina undanfarin misseri sem leikskólastjóri í afleysingum. Síðasta vor urðu mikil tímamót í starfi Grunnskólans á Hellu er Sigurgeir Guðmundsson skólastjóri lét af störfum eftir trausta skólastjórn í 35 ár. Í haust tók síðan Kristín Sigfúsdóttir við keflinu en hana þekkjum við auðvitað af hennar góðu störfum við Laugalandsskóla á umliðnum árum. Það æxlaðist svo þannig að Sigurgeir fékk ekkert að setjast í sinn helga stein strax því hann tók að sér tímabundið að gegna starfi skólastjóra Tónlistarskóla Rangæinga. Þá höfum við nú ráðið Sögu Sigurðardóttur tímabundið til að gegna starfi Markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins í launalausu leyfi Eiríks V. Sigurðarsonar.

Á fundi sveitarstjórnar þann 12. desember var tekin ákvörðun um ráðningu í starf forstöðumanns Eigna- og framkvæmdasviðs Rangárþings ytra sem auglýst var á dögunum. Niðurstaðan var að ráða Tómas Hauk Tómasson í starfið og mun hann hefja störf frá og með 1. Janúar 2020. Guðni G. Kristinsson sem hefur leyst af sem forstöðumaður undanfarið mun starfa áfram og mun m.a. einbeita sér að veitumálum þ.á.m. Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps bs og Rangárljósi. Guðni á mikið hrós skilið fyrir að leiða starfsemi þjónustumiðstöðvar með farsælum hætti undanfarin misseri.  Reyndar tel ég að sveitarfélagið Rangárþing ytra sé ákaflega heppið með sitt starfsfólk hvort sem það er í þjónustumiðstöð, leikskólum, grunnskólum, skrifstofu, íþróttamiðstöð eða öðrum verkefnum – mér finnst ég skynja að samstaða sé góð og mikill og ríkur vilji meðal starfsmanna að leggja sig fram með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi – þessu ber að fagna og þakka.

Læt hér pistlaskrifum lokið að sinni og óska íbúum Rangárþings ytra, samstarfsaðilum og viðskiptavinum sveitarfélagsins gleðilegra jóla með þökkum fyrir liðið ár. Megi árið 2020 verða okkur öllum hagfellt og gæfuríkt.

Ágúst Sigurðsson 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?