Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri.
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri.

Frá sveitarstjóra desember 2021

Fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélagið árin 2022-2025 var samþykkt í sveitarstjórn nú á desemberfundi. Áætlunin gerir ráð fyrir góðu jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins og jákvæðri rekstrarniðurstöðu en engu að síður mjög miklum framkvæmdum en uppbygging og endurnýjun skólabygginga á Hellu eru lang fyrirferðamestu framkvæmdirnar til næstu ára litið. Rekstrarniðurstaða 2022 er áætluð jákvæð um 227 mkr sem skapar góðan grunn fyrir framkvæmdir en samtals er reiknað með 560 mkr framkvæmdum á næsta ári. Á árinu 2022 er reiknað með að ljúka að fullu 1. áfanga við þróun skólasvæðisins á Hellu er byggt verður við elsta hluta grunnskólans. Viðbygging sem inniheldur m.a. nýjar kennslustofur fyrir miðstig skólans. Samhliða þessu verður á árinu 2022 farið í fullnaðarhönnun á 2. áfanga verkefnisins sem inniheldur m.a. sal, mötuneyti og nýjan aðalinngang auk sameiginlegs starfsmannarýmis fyrir grunn- og leikskóla. Þá er reiknað með að rými fyrir bókasafn og tónlistarskóla verði hluti annars áfanga. Samkvæmt fjárhagsáætluninni er ráðgert að fjármagna þessar framkvæmdir með lántöku og eignasölu auk þess sem hin jákvæða rekstrarniðurstaða léttir verulega undir. Á síðustu árum hafa þessar miklu framkvæmdir við endurnýjun skólahúsa á Hellu verið undirbúnar m.a. með því að greiða markvisst niður skuldir sveitarfélagsins en fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að skuldaviðmið standi í 62,5% í árslok 2022 sem telst ágæt staða og viðráðanleg.

Þrátt fyrir að skólaverkefnið sé lang fyrirferðamest þá eru samt sem áður mörg önnur framkvæmdaverkefni á áætlun og má nefna gatnagerð vegna hins nýja atvinnu- og þjónustuhverfis sunnan Suðurlandsvegar, áframhaldandi gatnagerð í Ölduhverfi og síðan hinu nýja Bjargshverfi en áætlað er að deiliskipulag fyrir Bjargshverfið líti dagsins ljós fljótlega á nýju ári. Þá eru ótalin viðhaldsverkefni fasteigna, gatna og opinna svæða þ.m.t. nýr Brettavöllur í Ölduhverfi. Mikil ásókn er í byggingarlóðir á Hellu nú um stundir. Þannig var nýlega úthlutað 17 lóðum, 15 íbúðalóðum fyrir 33 íbúðaeiningar og 2 atvinnulóðum á Hellu og fengu færri en vildu. Þurfti í mörgum tilfellum að draga um lóðir þar sem allt að 14 umsóknir voru um sumar lóðirnar. Lóðirnar sem úthlutað var í það skiptið standa við Kjarröldu, Bogatún, Guðrúnartún, Sporðöldu, Sandöldu, Langöldu, Dynskála og Faxaflatir á Hellu. Með Bjargshverfinu teygist byggðin á Hellu vestur fyrir Ytri-Rangá en reiknað er með að byggð verði ný göngu- og hjólabrú yfir Ytri-Rangá á svipuðum stað og gamla brúin stóð á sínum tíma og tengi þá hið nýja hverfi við eldri hluta þorpsins.

Á árinu var unnin ný atvinnu- og nýsköpunarstefna fyrir Rangárþing ytra en segja má að hún hafi sprottið fram í kjölfar atvinnumálþings sem haldið var í mars. Stefnan er verkefnamiðuð og lögð eru til 10 verkefni sem unnin verða á tímabilinu en stefnan verður endurskoðuð í október 2022. Sem dæmi um verkefni sem komin eru í vinnslu er undirbúningur að Grænum iðngörðum sem flokkast undir orkufrekan iðnað. Það er borðleggjandi fyrir okkur hér í Rangárþingi ytra að skipuleggja slíka iðngarða. Hér hjá okkur er framleiddur meirihluti þess rafmagns sem drífur Ísland áfram og það er mikilvægt að nýta hluta þessa rafmagns hér á heimaslóð. Grænir iðngarðar af því tagi sem við eigum að skoða gætu þurft orku af stærðargráðunni 10-25 MW og nú hafa mál þróast með þeim hagfellda hætti að orkuafhending af slíkri stærð er orðin möguleg hér án vandkvæða. Heppileg staðsetning fyrir slíka græna iðngarða gæti verið í Gunnarsholti eða jafnvel á Strönd. Þessu tengt er síðan möguleg nýting á glatorku t.d. í hitaveitukerfi svæðisins.

Framkvæmdir eru á undan áætlun við lagnir, götur og reiðstíga í nýju hesthúsahverfi á Rangárbökkum við Hellu. Verktaki er Nautás ehf. Mikil ásókn hefur verið í hesthúslóðir m.a. í tengslum við sérstakt átaksverkefni sveitarfélagsins um að styðja hesthúseigendur í eldra hverfi að flytja sig um set í nýtt hverfi. Það er því alveg ljóst að á næstu misserum og árum mun rísa á Rangábökkum eitt magnaðasta svæði hestamanna á landinu öllu. Öll aðstaða verður til fyrirmyndar og útreiðaleiðir með því albesta sem gerist en Aldamótaskógur er í næsta nágrenni við hið nýja hverfi.

Það er margt fleira spennandi í gangi hér í sveitarfélaginu okkar. Hinn nýi tengivegur frá Odda yfir Þverá niður á Bakkabæi skapar mikla möguleika en auk þess að tengja saman sveitarfélagið þá er þar kominn nýr hringvegur og öryggisleið. Því vel heppnaða verkefni er lokið og þá er að snúa sér að því næsta af svipuðu tagi sem er nýr vegur frá Sandhólaferju að Háfshverfi í Þykkvabæ. Þessi vegtenging er áhersluverkefni samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins og sveitarstjórnin samhuga í málinu að leita til landeigenda hvort finna megi heppilegt vegstæði fyrir þennan mikilvæga tengiveg. Gangi það eftir þarf að finna leiðir til fjármögnunar og drífa þetta svo af stað.

Ákveðin tímamót urðu nú á aðventunni þegar gömul og úr sér gengin hús í anddyri Helluþorps voru fjarlægð. Þetta voru gamla Trésmiðja og Pakkhús Kaupfélagsins Þórs sem áttu sína blómadaga og voru mikilvægir vinnustaðir til áratuga en húsin fyrir allnokkru komin að niðurlotum. Það voru Hagar sem eigandi húsa og lóða sem réðust í þessa tiltekt og það ber að þakka. Nú standa þarna tilbúnar fyrir næstu verkefni einhverjar bestu þjónustu- og verslunarlóðir Suðurlands. Tækifærin blasa við og rétt að hvetja Haga og samstarfsaðila til dáða að ráðast til uppbyggingar á lóðunum sem allra fyrst. Nýtt ár – ný tækifæri.

Færi íbúum og starfsfólki sveitarfélagins óskir um gleðileg jól og þakkir fyrir árið sem er að líða. Megi nýtt ár færa okkur öllum gæfu og gleðiríka daga.

Ágúst Sigurðsson

 

Þessi pistill birtist í fréttabréfi Rangárþings ytra sem má nálgast hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?