Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri við Ægissíðufoss.
Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri við Ægissíðufoss.

Samkvæmt fornu tímatali er mars fyrsti mánuður ársins. Í þá daga þótti við hæfi að nefna mánuðinn eftir herguðinum mikla enda á þessum árstíma tekið að vora suður í Rómarveldi og menn tilbúnir í átök vorsins ef svo bæri undir. Hér norður á Íslandi er ennþá vetur – en sá sem nú rennur brátt sitt skeið er vissulega með þeim mildari um langa hríð – amk hér um slóðir. Ef fram heldur sem horfir með tíðarfarið þá verður hægt að ráðast í vorverkin snemma þetta árið. Það eru því margir framkvæmdaboltar á leið í loftið hér í Rangárþingi ytra – og spennandi tíð framundan.

Stærsta verkefnið sem nú er í undirbúningi hjá sveitarfélaginu er auðvitað uppbygging á skólasvæðinu á Hellu. Þar erum við að undirbúa viðbyggingu grunnskólans og nýjan leikskóla. Þessu samhliða þarf að huga að endurbótum á útiíþróttasvæðinu. ARKÍS arkítektar eru með okkur í þessari vinnu en gert er ráð fyrir að frumdrög hönnunar liggi fyrir nú 20 apríl n.k. Þá ætti einnig að skýrast hvernig tímalína verkefnisins lítur út. Annað verkefni sem nú er komið af stað er hönnun og undirbúningur gatnagerðar í síðasta hluta Ölduhverfis. Niðurstaða verðkönnunar meðal verkfræðistofa var að semja við verkfræðistofuna Eflu ehf en reiknað er með að framkvæmdir geti hafist í sumar. Verður þá opnað fyrir lóðaúthlutun í nýrri götu - Kjarröldu. Þá var einnig farið í verðkönnun á gatnahönnun í hinu nýja hesthúsahverfi á Rangárbökkum og þar var lægstbjóðandi Hnit verkfræðistofa hf. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í vor en þegar hefur verið úthlutað nokkrum lóðum og menn í startholum að hefjast handa. Samhliða þessu er í undirbúningi átaksverkefni til að flýta uppbyggingu í nýja hesthúsahverfinu á Rangárbökkum en eldra hverfi á Hellu er víkjandi í skipulagi þorpsins. Frekari tíðinda er að vænta af þessu fljótlega. Af öðrum íþróttatengdum verkefnum má nefna að nú er í undirbúningi skipulag fyrir nýtt svæði fyrir vélhjólaíþróttir í nágrenni Hellu. Það er auðvitað löngu tímabært að unnendur vélhjólaíþrótta fá gott svæði til að stunda sínar greinar. Það er mjög löng hefð fyrir vélhjólaáhuga í Rangárþingi ytra og nú hyllir undir að þessum áhuga verði sýnd tilhlýðileg ræktarsemi. Áhugamenn hafa stofnað vélhjóladeild innan Umf. Heklu og vinna nú með sveitarfélaginu að deiliskipulagi fyrir framtíðarsvæði í landi Gaddstaða, austan Hellu og norðan þjóðvegar. Þess má geta að sveitarfélagið er nú einnig í samvinnu við ISAVIA og flugklúbb héraðsins að undirbúa tillögu að skipulagi við flugvöllinn á Hellu til framtíðar. Skipulag þessara svæða þarf auðvitað að klára með formlegum hætti áður en lengra er haldið, en fyrsta skrefið hefur a.m.k. verið stigið. Ef þetta gengur allt eftir þá verða hinar mótordrifnu íþróttir, akstur og flug, norðan þjóðvegar en sunnan þjóðvegar, í Aldamótaskógi og á Rangárbökkum, verður áherslan á göngur, reiðhjól og hestamennsku.

Lóðaúthlutun hefur verið með líflegasta móti nú á síðustu misserum og það er alveg ljóst að sú uppbygging sem hófst af krafti hér fyrir um 2 árum heldur áfram. Enda veitir ekki af, íbúðir seljast jafnóðum og þær rísa, íbúum fjölgar og eftirspurnin vex áfram. Það er því mikilvægt að tryggja nægar byggingarlóðir á þeim svæðum sem þegar eru skipulögð, huga að næstu skrefum varðandi iðnaðarlóðir og hefja undirbúning fyrir næstu framtíðarsvæði. Þannig er nú verið að hefja hugmyndavinnu við nýtt íbúðahverfi á landi sveitarfélagsins vestan Ytri-Rangár við Hellu – s.k. Bjargshverfi. Þar gætu orðið afar spennandi lóðir undir einbýlishús og mögulega parhús þegar fram líða stundir.

Nú í marsmánuði stendur fyrir dyrum íbúafundur um atvinnumál á vegum sveitarfélagsins. Við höfum haldið nokkra íbúafundi nú á síðustu mánuðum og notað til þess rafræn fundakerfi með ágætum árangri. Við sjáum að það liggja tækifæri í fundaformi af þessu tagi en þátttaka hefur verið mjög góð. Á næsta íbúafundi sem áætlaður er þann 23. mars n.k. ætlum við að gefa fólki færi á að taka þátt hvort heldur sem er með rafrænum hætti eða með því að mæta á fundarstað með hefðbundnum hætti. Málefni síðustu funda hafa verið þróun skólasvæðis á Hellu, hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga, skipulagsmál í sveitarfélaginu og fjárhagur sveitarfélagins. Næsti fundur er hins vegar helgaður atvinnumálum. Atvinnuástand hér í Rangárþingi ytra er ágætt og hér á síðum þessara fréttabréfa sveitarfélagsins má finna ótal dæmi um þau kraftmiklu fyritæki sem hér starfa. Atvinnuleysi er minna en mætti búast við nú á COVID tímum en vissulega eru tímabundnir erfðileikar í ferðaþjónustu. Öll trúum við því að það ástand muni leysast um leið og bólusetningar eru komnar í gegn og ferðaþyrstir heimsbúar taka að heimsækja okkur á ný. Við hér í Rangárþingi ytra þurfum hins vegar að fara vandlega yfir atvinnumálin og skoða hvaða tækifæri við getum ýtt undir. Nýsköpun og frumkvöðlastarf þarf að efla hér á svæðinu. Auk ferðaþjónustunnar þá er m.a. matvælaframleiðsla einkennandi fyrir okkar svæði. Getum við gert betur? Hvernig ætlum við að takast á við þær áskoranir sem fjórða iðnbyltingin ber í skauti sér? Fullvinnsla afurða, betri nýting og vöruþróun hlýtur að skipta miklu máli. Með svokölluðum „Störfum án staðsetningar“ liggja tækifæri til að auka á fjölbreytni í atvinnulífi hér um slóðir – við þurfum að búa svo um að mörg þessara starfa megi staðsetja hér hjá okkur. Hvernig gerum við það best? Við vitum líka að hlutverk sveitarfélagsins til að atvinnulíf geti blómstrað er auðvitað að skapa góðan grunn, bjóða fram góða þjónustu, faglega sterka og góða skóla, sjá til þess að ávallt sé til staðar úrval af byggingarlóðum, styðja við öflugt íþrótta- og tómstundastarf og leggja rækt við gott og fjölbreytt menningarlíf. Þetta vitum við auðvitað – nú er bara að halda einbeitingunni og verkgleðinni – við höfum alla möguleika til að grípa tækifærin sem hvarvetna liggja. Hér hjá okkur er nefnilega ekki bara hamingjan heldur líka krafturinn og fjörið!

 

Bestu kveðjur

Ágúst Sigurðsson

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?