Frá sveitarstjóra - september

Sumarið er tíminn - segir í dægurlaginu – en tilfellið er að haustið er framkvæmdatíminn – a.m.k. hjá sveitarfélögunum. Vonandi hinkrar veturinn með sína innkomu því það er margt sem við þurfum að koma í verk áður en hann gengur í garð. Þessa dagana er keppst við að ljúka þeim útiverkum sem krefjast sæmilegs veðurs. Þannig var í vikunni verið að malbika á Þrúðvangi út að Guðrúnartúni og gangstéttar í Ölduhverfi á Hellu. Jafnframt er gatnagerð í Kjarröldu að fara af stað og undirbúningur fyrir nýtt hesthúsahverfi á Rangábökkum kominn á góðan skrið. Hversu langt við komumst á þessu hausti ræðst auðvitað af veðri að einhverju leyti en við stefnum auðvitað að því að ná sem lengst þannig að óþreyjufullir húsbyggjendur geti hafist handa. Þróunin er sú á okkar svæði að þær íbúðir sem byggðar eru seljast jafnóðum en skortur er á öllum tegundum íbúða á söluskrá hjá fasteignasölum. Þetta er auðvitað afar ánægjuleg þróun og mikilvægt að sveitarfélagið nái að skipuleggja og leggja nýjar götur í hæfilegum takti þannig að ekki verði neinir alvarlegir flöskuhálsar í veginum. Endanlegt skipulag síðasta hluta Ölduhverfisins liggur fyrir og því á að vera hægt að taka í gagnið göturnar Kjarröldu, Lyngöldu, Melöldu og Móöldu allt eftir því sem eftirspurnin kallar. Nú í september hefur verið opnað á umsóknir um lóðir í Kjarröldu. Þá er frumhönnun og deiliskipulag fyrir Bjargshverfið í vinnslu með aðkomu Basalt arkítekta en það verður að teljast geysilega spennandi verkefni gagnvart framtíðarþróun þorpsins okkar á Hellu.

Oft hefur okkur þótt sem of lítið sé um vegaframvæmdir hér á okkar svæði og að við séum afskipt í þeim efnum. Þetta má til sanns vegar færa a.m.k. er nokkuð langt um liðið frá síðasta átaki í vegamálum í Rangárþingi ytra. Samantekt vegagerðarinnar sýnir glögglega að nú hljóti að vera komið að okkur hér austan Þjórsár enda bregður nú svo við að allnokkrar framkvæmdir eru á áætlun hér á svæðinu á næstu árum þó auðvitað þyrfti mun meira til svo ásættanlegt teldist. Ekki er við Vegagerðina að sakast þótt hægt gangi í þessum efnum – hún framkvæmir auðvitað bara í þeim takti sem fjármunir leyfa á hverjum tíma. Rétt er þó að gleðjast yfir því sem gert er og sannarlega hefur nýtt hringtorg við Landvegamót stuðlað að bættu umferðaröryggi og bundið slitlag sem nú í haust var lagt á hinn nýja Oddaveg og Rangárvallaveg að Hróarslæk eru góðar samgöngubætur.

Af ástæðum sem okkur öllum eru kunnar þá hefur verið lítið um hátíðahöld eða stærri mannfagnaði nú um nokkurt skeið hér í sveit sem annars staðar. Þannig voru t.d. engin Töðugjöld haldin í ár en þó tókst að halda m.a. bæði Oddahátíð og flughátíðina Allt sem flýgur í sumar. Báðar þessar hátíðir tókust vel og reyndar má segja um Oddahátíðina, sem náðist að halda í byrjun júlí þegar samkomutakmarkanir voru litlar, að það reyndist stærsta hátíð sumarsins hér um slóðir. Þar komu m.a. fram flestir kórar héraðsins auk Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands sem lék fyrsta sinni opinberlega á almennum tónleikum auk þess sem m.a. forsætisráðherra var heiðursgestur og flutti hátíðarræðu. Þetta var að sönnu mikill menningarviðburður og styður svo sannarlega við þá framtíðarsýn að gera okkar sögufræga Odda á Rangárvöllum að miðstöð menningar og fræða á nýjan leik fyrir þjóð og hérað. Í tengslum við Oddahátíð var hin nýja leið um Oddabrú opnuð að viðstöddu fjölmenni m.a. samgönguráðherra og vegamálastjóra.

Vinna við þróun skólasvæðis á Hellu heldur áfram og nú er verið að fullnaðarhanna 1. áfanga þess verkefnis sem er 465 fm viðbygging við elsta hluta grunnskólans en reiknað er með að þessi áfangi fari í útboð innan tíðar og verði byggður árið 2022. Arkís arkítektar hafa yfirumsjón með hönnun og Verkís hf vinnur verkfræðihlutann.

Vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næstu ár er komin nokkuð áleiðis og áætlað að taka áætlunina til fyrri umræðu í sveitarstjórn í nóvember eins og verið hefur. Fyrstu hlutar áætlunarinnar snúa að þeim fjölmörgu byggðasamlögum sem sveitarfélagið okkar er aðili að en þar verður til stór hluti þess grunns sem fjárhagsáætlun sveitarfélagsins byggir síðan á í framhaldinu.

Umhverfisverðlaun Rangárþings ytra voru afhent í vikunni þeim sem þykja skara framúr í að hafa snyrtilegt í kringum sig og eru til fyrirmyndar í þeim efnum. Vil ég nota tækifærið og óska þeim Bjarna og Ólínu Magný að Sigöldu 4 og Evu og Guðmundi að Efri-Rauðalæk innilega til hamingju með viðurkenningarnar. Slík snyrtimennska er okkur öllum hvatning til að gera betur.

Ekki hefur viðrað sérstaklega til heyskapar eða fjallferða nú síðsumars en fjársmölun hefur engu að síður gengið ágætlega og góðar heimtur enda vant fólk og öruggt að störfum. Núna um miðjan september var staðan sú samkvæmt vef Landsambands veiðifélaga að Ytri-Rangá og Hólsá vesturbakki trónir á toppi veiðitölulistans yfir landið og Eystri-Rangá skammt undan í öðru sæti. Þetta eru að sönnu mestu laxveiðiár landsins og skipta verulegu máli fyrir samfélagið hér um slóðir.

Nú þegar þetta fréttabréf kemur út standa yfir kosningar til alþingis og kosningar um sameiningu fimm sveitarfélaga hér á Suðurlandi - þar með talið okkar hér í Rangárþingi ytra. Með þessum orðum fylgir hvatning til íbúa að nýta kosningarétt sinn, það er mikilvægt að þátttaka verði góð þannig að afstaða íbúa liggi glögglega fyrir.

Bestu kveðjur,
Ágúst Sigurðsson

Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér. 

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?