Fréttir af skipulagsmálum í Rangárþingi ytra

Útsýni frá Bjargshverfi.
Útsýni frá Bjargshverfi.

Skipulagsmál í Rangárþingi ytra eru afar umfangsmikil og hafa verið undanfarin ár. Ástæðan er stærð sveitarfélagsins og sú fjölbreytni í landnotkun sem sveitarfélagið státar af. Mismunandi eignarhald og mismunandi áherslur sem landeigendur styðjast við gera það að verkum að sífellt eru breytingar í ferli sem eiga þarf við. Hvort sem af áformum verður eða ekki þá kallar samráð við eigendur, stofnanir og hagsmunaaðila á mikla vinnu og utanumhald. Heilmiklar breytingar hafa átt sér stað í gegnum árin. Landbúnaður er t.d. ekki næstum því eins og hann var hér á árum áður, ferðaþjónustan blómstrar sem aldrei fyrr og hrossaræktin tekur sinn sess víða í sveitarfélaginu. Förum aðeins yfir skipulagsmálin hjá okkur:

Byrjum á Svæðisskipulagsmálum. Hafin er vinna við svæðisskipulag þeirra sveitarfélaga sem að Suðurhálendinu liggja. Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna um þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Skipulagssvæðið nær yfir hálendissvæði 9 sveitarfélaga á Suðurlandi þ.e. í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Auk þessara 9 sveitarfélaga taka Árborg og Flóahreppur þátt í verkefninu, en þessi sveitarfélög eiga sameiginlega nýtingarrétt á Flóa- og Skeiðamannaafrétti.

Haldnir hafa verið 6 formlegir fundir, allir á rafrænum vettvangi sökum Covid. Hvert sveitarfélag skipaði tvo fulltrúa í vinnuhópinn og tvo til vara. Auk þess starfa skipulagsfulltrúar sveitarfélaganna með hópnum. Ráðgjafar við skipulagsvinnuna er EFLA Verkfræðistofa. Helstu markmið með svæðisskipulagsvinnunni eru:

  • Marka stefnu um verndun og nýtingu, í samræmi við sjálfbæra þróun og þolmörk einstakra svæða.
  • Samræma eftir því sem unnt er stefnu sveitarfélaganna í helstu landnotkunarflokkum. Tekur m.a. til mannvirkjagerðar, samgangna, ferðaþjónustu, orkuöflunar, verndarsvæða og afréttarnytja.
  • Marka stefnu um stórar samfelldar landslagsheildir með lágt byggingarstig.
  • Styrkja landshlutann í heild gagnvart nýtingu auðlinda og atvinnutækifærum.

Svo skulum við taka fyrir aðalskipulagsmál sveitarfélagsins. Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Aðalskipulag getur verið mikilvægasta stjórntæki sveitarstjórnar vegna áforma um framkvæmdir og starfsemi. Aðalskipulag skal gilda í að lágmarki 12 ár. Eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar er fyrsta hlutverk nýrrar sveitarstjórnar að meta hvort þörf sé á endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins. Ákvörðun var tekin um það í Rangárþingi ytra að hefja þá vegferð á forsendum þess að ný skipulagslög höfðu tekið gildi ásamt nýrri skipulagsreglugerð. Jafnframt vegna breyttra aðstæðna í ferðaþjónustu ásamt frekari skilgreiningu á orkumálum í aðalskipulagi. Samhliða þeim breytingum hafði Landsskipulagsstefna tekið gildi á árinu 2016. Nýtt og endurskoðað aðalskipulag Rangárþings ytra 2016-2028 tók gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda þann 9.10.2019. Helstu breytingar voru þær að sett var inn heimild til byggingar stakra íbúðar- og frístundahúsa í dreifbýli, nokkrir áningarstaðir skilgreindir sem Afþreyingar- og ferðamannastaðir, heimiluð bygging allt að 100 m hárra vindrafstöðva, heimilaðar ýmsar minni framkvæmdir á landbúnaðarsvæðum, afmörkun vatnsverndarsvæða endurskilgreind, sett inn ný vatnsból og ný efnistökusvæði, gert ráð fyrir göngu- og reiðleið yfir Þjórsá við Þjófafoss, meginstarfsemi í Landmannalaugum flytjist norður fyrir Námshraun, þéttbýlismörkum breytt í Þykkvabæ, Íbúðarsvæðum innan Hellu breytt og þéttbýlismörk endurskoðuð. Listinn er engan veginn tæmandi. Þar sem vinna við endurskoðun aðalskipulags tekur langan tíma voru gerðar nauðsynlegar breytingar á því strax eftir gildistöku, sem ekki náðust inn í ferli endurskoðunarinnar. Staðfestar hafa verið 8 breytingar og eru í dag um 6 breytingar í ferli. Ekki hljóta allar umsóknir um breytingar náð fyrir augum skipulagsyfirvalda og eru því einungis taldar hér upp þær breytingar sem hlotið hafa staðfestingu. Megin hluti breytinganna snýr að breytingum úr landbúnaðarnotum yfir í verslun- og þjónustu og einnig úr frístundanotum yfir í landbúnaðar- eða íbúðarnot.

Stefna sem sett er fram í aðalskipulagi er útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti. Deiliskipulag nær til afmarkaðs svæðis sem myndar heildstæða einingu – hverfis, hverfishluta, götureits eða húsaþyrpingar. Þar eru sett ákvæði um byggingarheimildir og útfærslu bygginga og frágang umhverfis. Byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi skulu vera í samræmi við skipulag. Almenna reglan er að byggingaleyfi skuli byggja á deiliskipulagi, en framkvæmdaleyfi geta í tilteknum tilvikum byggt á aðalskipulagi. Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð deiliskipulags. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð deiliskipulags í umboði sveitarstjórnar. Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Með samþykkt slíkrar tillögu gerir sveitarstjórn deiliskipulagið að sínu og ber ábyrgð á framfylgd þess. Deiliskipulag þarf alltaf að vera í fullu samræmi við stefnu í aðalskipulagi. Yfir 40 deiliskipulagsáætlanir hafa verið samþykktar í sveitarstjórn frá gildistöku aðalskipulagsins og er meginhluti þeirra umbeðinn af landeigendum eða framkvæmdaaðilum. Sveitarfélagið sjálft hefur einnig unnið að gerð nokkurra deiliskipulaga og má þar nefna breytingar á miðbæjarsvæði Hellu, breytingu á deiliskipulagi fyrir Gaddstaði, lóðir við Hróarslæk, við dvalarheimilið Lund á Hellu, útivistarsvæði við Nes, atvinnusvæði sunnan við Suðurlandsveginn, uppbygging á flugvallarsvæðinu á Hellu, Öldur III íbúðasvæði, Bjargshverfi íbúðasvæði og fl. Í farvatninu eru fjölmörg áform sem upp hafa komið sem kalla á deiliskipulag og eftir þörfum breytingum á aðalskipulagi og sér ekki fyrir endann á slíku.

Hér lýkur örstuttri yfirferð minni á skipulagsmálum í Rangárþingi ytra og má sjá að af nógu er að taka.

Har. Birgir Haraldsson
Skipulags- og byggingafulltrúi

Fleiri fréttir og kynningar úr Rangárþingi ytra má finna í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?