GÖNGUM AÐ BORÐINU MEÐ OPINN HUGA OG JÁKVÆÐNI

Íbúar í Rangárþingi ytra hafa áður tekið þátt í rafrænum íbúafundi og virðist sú reynsla hafa komið sér vel í gærkvöldi, en rúmlega 70 manns mættu á fundinn. Auk þeirra fylgdust um 30 með útsendingu á Facebooksíðu Rangárþings ytra.

Að kynningum loknum var fundarfólki skipt upp í umræðuhópa í samræmi við áhugasvið þeirra og skráningu fyrir fundinn. Var þetta í fyrsta skipti sem svo stórum hópi var skipt upp í hópa og gekk það vonum framar. Hóparnir voru :

  • Fjármál og stjórnsýsla
  • Umhverfi, samgöngur og skipulag
  • Atvinnu- og byggðamál
  • Fræðslu- og félagsþjónusta
  • Menning, frístundir og lýðheilsa
  • Eignir, veitur og fjárfestingar

Hver hópur ræddi umræðuefnið út frá þessu fjórum spurningum.

  1. Eiga sveitarfélögin fimm að halda áfram viðræðum og leyfa íbúum að kjósa um sameiningu þeirra?
  2. Hvað ber að varast í sameiningarferlinu?
  3. Hvað viljum við varðveita?
  4. Hvaða tækifæri liggja í sameiningu sveitarfélaganna?

Miklar umræður spunnust í hópunum og komu fram mjög gagnlegar upplýsingar fyrir þá ákvarðanatöku sem verkefnishópurinn stendur frammi fyrir.

Meðal þess helsta sem fram kom er að íbúar í Rangárþingi ytra leggja áherslu á að halda áfram að þróa öflugt skólastarf og halda uppi háu þjónustustigi. Sömu sögu má segja um aðra þjónustu, að hún skerðist ekki heldur eflist.

Það sem helst ætti að varast er að gefa fólk of miklar væntingar um að sameining sveitarfélaga leysi mál eða í kjölfarið verði miklar breytingar sem erfitt er að standa við. Gæta þarf að því að stjórnsýslan verði ekki of miðstýrð og aðkoma íbúa á jaðarsvæðum að ákvörðunum verði tryggð.

Íbúar í Rangárþingi ytra vilja varðveita sérstöðu og menningu hvers staðar og samfélags. Sameining sveitarfélaga þarf ekki að leiða til þess að allir séu steyptir í sama mót, heldur sé hvatt til þess að samfélögin haldi sínum sérkennum. Í því felst jafnframt að þjónusta geti verið mismunandi innan sveitarfélagsins ef aðstæður eru mismunandi.

Íbúar hvöttu til þess að allir gangi að borðinu með opinn huga, og jákvæðni, þannig megi leiða flest mál til lykta.

Sama fyrirkomulag verður á þeim fundum sem framundan eru í Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi og eru íbúar hvattir til að skrá sig á svsudurland.is og taka þátt í líflegum umræðum. Elín Elísabet og Rán Flygenring sjá um að myndlýsa því sem kemur fram á fundunum og má lesa helstu niðurstöður út úr teikningum þeirra hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?