Heiðraðir í Reyðarvatnsréttum

Það var líf og fjör í Reyðarvatnsréttum í dag þegar réttað var af Rangárvallaafrétti. Réttirnar hafa verið teknar fallega í gegn, málaðar og timbur og hlið endurnýjað. Í tilefni dagsins voru tveir af fjallmönnum heiðraðir sérstaklega. Þetta voru þeir Ingimar Ísleifsson á Sólvöllum og Ingvar Magnússon á Minna-Hofi. Þeir hafa báðir verið farsælir fjallmenn Rangvellinga í yfir hálfa öld. Réttarstörfin gengu vel undir vökulu auga réttarstjórans Ársæls Jónssonar í Eystra-Fróðholti og margir lögðu leið sína í réttir og mikið fjör hjá yngstu réttargestum sem hjálpuðu til við að draga af miklum dugnaði. Þyrí Sölva sá um að reiða fram kaffi, kakó og nýbakaðar pönnukökur ofaní mannskapinn og félagar úr Karlakór Rangæinga stýrðu fjöldasöng. Veður reyndist prýðilegt er leið á daginn og réttardagurinn vel heppnaður.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?