Segja má að næstkomandi helgi verði helguð sauðkindinni í Rangárvallasýslu en viðburðir tengdir sauðfjárrækt verða haldnir bæði laugardag og sunnudag.
Laugardaginn 11. október verður hinn árlegi „Dagur sauðkindarinnar“ haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á Hvolsvelli. Dagur sauðkindarinnar verður nú haldinn í 19. sinn en viðburðurinn er haldinn annað hvert ár á Hellu og annaðhvert ár á Hvolsvelli.
Dómarastörf hefjast kl. 10 en sýning og röðun í sæti hefst kl. 13.
Segja má að þetta sé uppskeruhátíð sauðfjárbænda í sýslunni en dómarar frá RML dæma lömb bænda sem þeir koma með til dóms. Keppt er í ýmsum flokkum og oft mikil spenna fyrir úrslitunum. Auk verðlauna í stökum flokkum eru ræktunarbúsverðlaun ársins á undan veitt.
Nánar má lesa um viðburðinn á Facebook-síðu hans með því að smella hér. Viðburðurinn er opinn öllum og er tilvalið tækifæri til að kynna sér sauðfjárrækt, koma saman og hitta sveitunga sína.
Sunnudaginn 12. október er svo komið að fjárlitasýningu í Árbæjarhjáleigu 2 í Holtum. Það er fjárræktarfélagið Litur sem stendur fyrir þessum árlega viðburði sem hefst kl. 14. Þar er einnig keppt í ýmsum flokkum og öll velkomin.