Hestamenn í sóknarhug á Hellu

Þau tíðindi urðu nú í síðustu viku að úthlutað var síðustu lausu lóðunum í hinu nýja hesthúsahverfi á Rangárbökkum við Hellu. Hefur þá verið úthlutað 28 hesthúslóðum við fjórar nýjar götur hverfisins og þarf því fljótlega að huga að útvíkkun svæðisins.

Þeir sem hafa tryggt sér lóðir eru bæði áhugfólk og atvinnumenn í hestamennsku en að verulegum hluta eru þetta eigendur hesthúsa úr gamla hesthúsahverfinu á Hellu sem ákveðið hafa að ganga að tilboði sveitarfélagsins um að flytja sig í nýtt hverfi. Flestir úr gamla hverfinu hyggjast nýta tækifærið og hafa sótt um þátttöku í því verkefni en fyrstur til að ríða á vaðið og ganga frá samningum var Sigfús Davíðsson á Hellu sem hyggst flytja með hesta sína og hnakka á nýjan stað við Orravelli 2 á Rangárbökkum.

Það verður því líf og fjör í hinu nýja hverfi áður en langt um líður og margir sem hyggjast hefjast handa við smíðar af fullum krafti strax að loknu Landsmóti hestamanna í sumar. Þess má geta að gatnagerð í nýja hverfinu sækist vel og jafnframt verið að sá fljótsprottnu grasi í jarðrask þannig að allt verði orðið grænt í byrjun júlí þegar gestir taka að streyma á Rangárbakka.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?