Hrönn Vilhelmsdóttir annar eigandi Hlöðueldhússins
Hrönn Vilhelmsdóttir annar eigandi Hlöðueldhússins

Hlöðueldhúsið hóf starfsemi sína í Þykkvabæ í júníbyrjun á þessu ári. Það eru hjónin Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson sem þar hafa byggt upp matarupplifun og gleði fyrir 10-16 manna hópa. Það felst í því að hóparnir fá góða aðstöðu til að elda margrétta máltíð saman undir leiðsögn og úr hráefni sem þegar er á staðnum. Við það myndast stemmning sem er einstök. Afraksturinn er síðan snæddur í veitingasal staðarins sem áður var hlaða en nú flottur salur. Einnig taka hjónin á móti stærri hópum, 20-50 manna, og þá er eldað fyrir þá og þjónað til borðs.

Strax eftir opnun fundu hjónin fyrir miklum áhuga og hópar voru byrjaðir að koma og pantanir lofuðu mjög góðu. En, eins og fleira í ferðaþjónustu, fylgdi þetta öfugri kúrfu miðað við Covid-19 að þegar skýkingatíðni jókst, jukust líka afpantanir. Því erum þau bjartsýn að þegar „ástandinu“ lýkur þá muni landsmenn kunna að meta þessa viðbót við afþreygingu sem völ er á. Mjög fjölbreyttir hópar höfðu sýnt þessu áhuga t.d. starfsmannafélög, gönguhópar, saumaklúbbar o.s.fr. Einnig höfðu hótel í kring sýnt því áhuga að koma með gesti sýna á þessi námskeið.

Frá byrjun var lagt upp með að Hlöðueldhúsið væri sem vistvænast, sem birtist í því að reynt er að fá hráefni af íslenskum uppruna og helst sem næst Þykkvabæ. Þá er allur úrgangur flokkaður og lífrænt efni sett í Bokashi kassa (japanst kerfi) og síðan í moltugerð. Á staðnum er gróðurbraggi sem nýtir moltuna og þar er ræktað grænmeti og kryddjurti fyrir eldamennskuna. Einnig er matjurtagarður við hlið braggans með rófum, kartöflum og ýmiskonar blaðgrænmeti. Orkusparnaður felst í því að í Hlöðueldhúsinu er jarðvarmadæla til húshitunar og neysluvatns. Auk þess er á staðnum hleðslustöð fyrir rafmagsbíla.

Nánari upplýsingar um Hlöðueldhúsið má finna á Facebook.com/hlodueldhusid og www.hlodueldhusid.is.

Fleiri fréttir og umfjallanir um fyrirtæki í Rangárþingi ytra má nálgast í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins.

Fleiri myndir má nálgast á Facebook síðu Rangárþings ytra.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?