Hollvinur Laugalandsskóla - Kvenfélagið Eining

Kvenfélagið Eining hefur um árabil starfað og unnið að góðgerðamálum í Holtunum. Hefur það haldið hina árlegu aðventuhátíð á Laugalandi fyrsta sunnudag í aðventu. Þá hefur kvenfélagið staðið sem traustur hollvinur við Laugalandsskóla og gefið bæði skólanum og leikskólanum rausnarlegar fjárhæðir til kaupa á nytsamlegum tækjum sem hafa nýst vel fyrir nemendur.

Í febrúar síðastliðinn, rétt fyrir Þorrablót, luku kvenfélagskonurnar við að sauma ný tjöld í íþróttasalinn á Laugalandi. Þær sáu um val á bæði efni og lit og eins og sjá má á myndunum þá breytti salurinn alveg um ásýnd með tjöldunum.

Samstarf kvenfélagsins og Laugalandsskóla hefur verið bæði  fjölbreytt og skemmtilegt, nemendur skólans notið góðs af umhyggju þeirra og við reynt að þakka fyrir okkur með  því að koma fram með skemmtiatriði, syngja og leika þegar kvenfélagið hefur staðið fyrir hinum ýmsu skemmtunum. Má þar nefna  fyrrnefndar aðventuhátíðir þar sem  nemendur skólans hafa troðið upp með söng og leik.

Við í Laugalandsskóla bæði nemendur og starfsfólk þökkum af heilum hug fyrir ómetanlegan hlýhug í okkar garð og gjafir kvennfélagsins, þökkum fyrir okkur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Sigurjón Bjarnason skólastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?