Hvetjum til samveru fjölskyldunnar í sumar

Í sumar vill Saman hópurinn  ítreka mikilvægi samveru foreldra og unglinga. Rannsóknir hafa sýnt að samvera fjölskyldunnar sé ein besta forvörnin. Í rannsóknum Rannsókna og greiningar við Háskólann í Reykjavík kemur fram að sífellt fleiri ungmenni segjast oft eða alltaf vera með foreldrum sínum bæði á virkum dögum og um helgar, samfara því að neysla tóbaks, áfengis og vímuefna hjá unglingum er áfram á undanhaldi. Forvarnastarf á þessu sviði virðist því vera að skila miklum árangri. Unglingar og foreldrar vilja eiga fleiri samverustundir saman og er sumarið kjörinn tími til þess. Samvera fjölskyldunnar og mikilvægi þess að foreldrar skapi góðar minningar með börnununum sínum verður megininntakið í auglýsingum SAMAN-hópsins í sumar. Lögð er áhersla á að samvera þarf ekki að þýða útgjöld, við getum spjallað saman, spilað saman, sungið, leikið, hjólað, eldað og farið í göngutúra svo dæmi séu tekin.

Samanhópurinn vill hvetja þau sveitarfélög sem bjóða heim á stórar bæjarhátíðir í sumar að hyggja vel að öllu skipulagi er varðar öryggi barna og ungmenna t.d. með því að framfylgja aldurstakmörkunum áfengislaga, lögum um útivistartíma barna og taka mið af öðrum verndarákvæðum barnaverndarlaga. Þá hvetjum við ykkur til að leggja öðru fremur áherslu á  samveru fjölskyldunnar og  að skapa góðar minningar.

Í hópnum sitja m.a. fulltrúar félagsþjónustu og forvarnafulltrúar víðsvegar af landinu, lögreglu og landlæknis, lýðheilsu, samtökum foreldra, verndara og annarra sem láta sér forvarnir og velferð barna og ungmenna og fjölskyldunnar varða.

Gleðilegt sumar, SAMAN - hópurinn

Auglýsingar hópsins á www.samanhopurinn.is.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?