Íbúafundur um staðsetningu á vindmyllum í Rangárþingi ytra

Íbúafundur um staðsetningu á vindmyllum innan Rangárþings ytra verður haldinn þann 18. apríl 2013 kl. 20.00 í Íþróttahúsinu í Þykkvabæ skv. ákvörðun Skipulagsnefndar.

H. Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra, Steingrímur Erlingsson og Snorri Sturluson f.h. Biokraft ehf. og Friðrik Magnússon f.h. Kartöfluverksmiðjunnar í Þykkvabæ munu sitja fundinn og svara spurningum eftir þörfum. Fundarstjóri verður Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Skipulags- og byggingarfulltrúi mun einnig svara spurningum um önnur skipulagsmál í sveitarfélaginu í lok fundar ef eftir því verður leitað.

Fundurinn er öllum opinn en íbúar í Þykkvabæ eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Skipulagsnefnd Rangárþings ytra


Svohljóðandi var bókað á 57. fundi Skipulagsnefndar Rangárþings ytra þann 26. mars 2013:

Staðsetning á vindmyllum innan Rangárþings ytra

Steingrímur Erlingsson fyrir hönd Biokraft ehf. óskar eftir leyfi til uppsetningar á tveimur 52 metra háum vindmyllum til orkuöflunar. Álit Skipulagsstofnunnar er sú að breytingin sé ekki háð lögum um umhverfismat áætlana. Tekin fyrir næstu skref.

Skipulagsnefnd telur rétt á þessum tímapunkti að halda íbúafund um málið og kynna fyrir íbúum í Þykkvabæ þau áform sem uppi eru, áður en lengra er haldið. Fyrirhuguð áform kalla á breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra þar sem setja þarf inn nánari skilmála um vindmyllur á svæðinu, ásamt því að stækka þyrfti núverandi iðnaðarsvæði norðan Þykkvabæjar, svo uppfylla megi fjarlægðarmörk. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að annast undirbúning íbúafundarins.

 


Biokraft ehf. hefur leitað samstarfs við Kartöfluverksmiðjuna í Þykkvabæ um að koma vindmyllum fyrir á skipulögðu iðnaðarsvæði norðan af verksmiðjunni. Hugmyndir eru uppi um að verksmiðjan nýti raforkuna beint til sinnar vinnslu ef kostur er. Samstarfsaðilar eru m.a. Orkustofnun, Veðurstofa Íslands og Vestas (framleiðandi vindmyllanna).

Vindrafstöðvarnar eru af gerðinni Vestas V44. Mastur vindrafstöðvarinnar er röramastur 52 m hátt, á það kemur stöðvarhús sem er 2,5 m á hæð og 6 m langt, spaðar vindrafstöðvarinnar eru 21 m langir og samanlagt þvermál er 44 m.  Þegar hverfilspaðinn fer hæðst getur hæðin orðið 74 m.  Þvermál masturs er neðst um 3,6 m og er kóníst upp og endar í 2 m.  Undirstöðurnar er kassalagafótament sem er 10 x 10 m og er um 1 m hátt sem hækkar upp í 1,8 m næst sætiskransi.

Gert er ráð fyrir að spennistöð verði staðsett við hverja vindrafstöð, spennistöðin er forsteypt eining 3 m x 2 m og er staðsett 5 m frá mastri.

Hljóð frá Vindrafstöðvunum er um 100 db við mastur en minnkar sem fjær dregur:  50 m = 58 db, 100 m = 50 db, 200 m = 42 db, 300 m = 40 db, 400 m = 35 db.  Fjarlægð í næstu byggingu er í kartöfluverksmiðjuna um 300 m og er, samkvæmt reglugerð NR: 724/2008, undir viðmiðunarmörkum um hávaða á blönduðu svæði 45 db. Hver vindrafstöð er með ásett afl 600 Kw og er áætluð ársframleiðsla um 3,5 - 4 Gwh.


Vindmylla af svipaðri gerð við Bella Sky Comwell hótelið í Kaupmannahöfn

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?