Íbúafundur vegna skipulagsmála í Leyni 2 og 3

Íbúafundur um skipulagsmál Leynis 2 og 3 í Rangárþingi ytra

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti á fundi sínum 14.11.2019 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Leyni 2 og 3, Rangárþingi ytra ásamt því að gerðar yrðu breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem hluti svæðisins verði gerður að verslunar- og þjónustusvæði í stað landbúnaðar. Áform landeigenda gera ráð fyrir uppbyggingu á þjónustu til ferðamanna. Lýsing skipulagsáforma hefur verið kynnt og bárust athugasemdir og ábendingar sem fjallað hefur verið um og tekið tillit til við vinnslu nýrrar tillögu. Meðal breytinga frá kynningu lýsingar þá var áformað frístundasvæði tekið út og umfang varðandi gestafjölda minnkað. Gistiskálar úr timbri komi í stað hjólhýsa á tjaldsvæði. Aðkoman að svæðinu verði frá Landvegi um Stóru-Vallarveg.

                Sveitarstjórn Rangárþings ytra boðar til opins kynningar- og samráðsfundar um málefni tengd áformaðri uppbyggingu að Leyni 2 og 3. Fundurinn verður haldinn að Brúarlundi í Landsveit fimmtudaginn 21. nóvember nk og hefst klukkan 20.00. Þar gefst gestum tækifæri til að kynna sér áherslur framkvæmdaaðila ásamt því að fulltrúar sveitarstjórnar og fulltrúar framkvæmdaaðila ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa sitja fyrir svörum.  Allir velkomnir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?