Írena safnaði nærri hálfri milljón fyrir SOS Barnaþorpin á Haítí

Nú fyrir jólin hélt söngkonan Írena Víglundsdóttir styrktartónleika á Hellu fyrir SOS Barnaþorpin. Framlagið, kr. 477.500 fer í endurbætur á niðurníddu barnaþorpi á Haítí.

Írena hafði samband við skrifstofu SOS Barnaþorpanna fyrr á árinu og nefndi áhuga sinn á að halda tónleika til styrktar samtökunum. Hún þekkir vel til samtakanna; er styrktarforeldri barns í barnaþorpi á Indlandi auk þess sem foreldrar hennar og amma hafa styrkt nokkur börn á vegum samtakanna í mörg ár.

Tónleikarnir kölluðust „Jólagjöfin“ og voru haldnir sunnudaginn 16. desember í menningarheimilinu á Hellu. Til stóð að halda eina tónleika en þegar uppselt varð á þá í forsölu ákvað Írena að halda aukatónleika síðar um daginn. Miðar á síðari tónleikana seldust einnig upp.

Auk miðasölunnar aflaði Írena styrkja hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þegar upp var staðið nam framlagið 477.500 krónum og vildi Írena að upphæðin færi í enduruppbyggingu SOS Barnaþorpsins í Santo (Port-au-Prince) á Haítí, en þorpið hefur mjög látið á sjá vegna álags eftir að börnum í þorpinu fjölgaði mjög í kjölfar jarðskjálftans í janúar 2010.

Ásamt Írenu komu eftirtaldir fram á tónleikunum:

Söngvarar: Ómar Diðriksson, Lilja Margrét Ómarsdóttir, Kristrún Hákonardóttir, Berglind Hákonardóttir, Andrea Hrund Bjarnadóttir, Guðgeir Óskar Ómarsson, Kristrún Steingrímsdóttir, Fríða Hansen, Heiðrún Huld Jónsdóttir, Rúnar Þór Guðmundsson og Gíslunn Hilmarsdóttir.

Hljómsveit: Sigmar Pálmarsson, Þórir Ólafsson, Ólafur Þórðarson, Steinn Daði Gíslason og Ómar Diðriksson.

 

 

 

 

 

Hér neðar má sjá myndband af tónleikunum sem Bjarkey Líf Ásmundsdóttir tók upp og er aðgengilegt á www.youtube.com:

*myndir og texti af www.sos.is

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?