Sigurður Einarsson og Anna Guðlaug Albertsdóttir leyta grasa á Fljótshlíðarafrétti.
Sigurður Einarsson og Anna Guðlaug Albertsdóttir leyta grasa á Fljótshlíðarafrétti.

Jöklamús er fyrirbæri í náttúrunni sem fáir kannast við, en það er mosavaxinn ávalur smásteinn, sem veltur undan vindum á jökli og safnar smám saman á sig gróðri þar til hann verður einskonar mosakúla. Fleiri kannast sennilega við Jöklamúsina hans Sigurðar Einarssonar á Hellu, en það er græðandi krem úr fjallagrösum, sem hann og kona hans Anna Guðlaug Albertsdóttir byrjuðu að þróa 2003 og settu á markað 2008.

Átján grasa blanda
Siggi er uppalinn á Höfn í Hornafirði og var mörg sumur í sveit í Svínafelli í Nesjum, hjá þeim Arnbirni Sigurbergssyni og Arnbjörgu Sveinsdóttur. Bærinn var þá umkringdur jökulám að austan og vestan og Vatnajökli að norðan, þannig að fé og aðrar skepnur komust ekki yfir og því gróðursæld mikil í Svínafelli. Austurfljótin þornuðu hins vegar upp fyrir allnokkrum árum og því er nú bílfært alla daga ársins í Svínafell og fé af öðrum bæjum á einnig greiðan aðgang.
Á efri hæðinni í Svínafelli bjuggu Sigurbergur Árnason og Þóra Guðmundsdóttir, foreldrar Arnbjörns. Þau eru bæði látin. Þóra kunni ýmislegt fyrir sér og meðal annars bjó hún til græðandi smyrsl úr fjallagrösum.
„Ég var með exem þegar ég var krakki og þurfti oft að leita á náðir Þóru til að fá smyrsl á sárin,“ segir Siggi. „Hún kenndi mér ýmis-legt um fjallagrös, en ég gleymdi því náttúru-lega öllu þegar ég komst á unglingsárin, var þá annað að hugsa. Seinna, þegar heilsan fór að bila, fékk ég áhuga á heilsutengdum málum og rifjaði þá upp grasakunnáttuna.
Þóra var stundum í sambandi við Erling Filippusson grasalækni frá Kálfafellskoti í Fljótshverfi og ég mundi eftir því að hún hafði eftir honum að besta virknin næðist í grasa-meðul með því að blanda saman mörgum tegundum grasa með svipaða virkni. Við fórum á fjöll og týndum átján tegundir grasa sem ég hafði lesið mér til um. Þessi uppskrift virkaði svo vel að við höfum ekki breytt henni að ráði síðan. Við frostþurrkum grösin og blöndum þeim í ullarfeiti úr kindaull, sem ég kaupi frá Þýska-landi. Hrein íslensk ullarfeiti er því miður ekki fáanleg.“
Jöklamúsin er framleidd í þremur útgáfum: Græðir er alhliða sárasmyrsl, Varagræðir er sérstaklega fyrir varaþurrk og frunsur, og Bjrósta- og bossakrem er notað á þá líkams-parta sem nafnið segir til um.
Jöklamúsin hefur reynst sérstaklega áhrifa-rík á brunasár, en virkar líka mjög vel á öll nuddsár, exem, varaþurrk og bleyjusár, svo eitthvað sé nefnt. Bera má kremið á öll húð-svæði líkamans, ekki bara útvortis, heldur inn í munn, nef, augu og allskonar.

Hressandi grasaseyði
Til þessa hafa þau Siggi og Gulla ekki prófað sig áfram með aðra framleiðslu úr fjalla-grösum en kremið. Siggi minnist þess þó að Þóra í Svínafelli hafi soðið seyði í lækninga-skyni, sem hafði góð áhrif.
„Sigurbergur heitinn í Svínafelli fékk maga-krabba á efri árum, sem hann var nokkuð kvalinn af. Þóra útbjó fjallagrasaseyði, sem hann drakk og leið talsvert betur á eftir. Faðir minn kom eitt sinn sem oftar í heimsókn í Svínafell og við fórum upp á loft í heimsókn til gömlu hjónanna. Sigurbergur bauð pabba upp á grasaseyði og eftir hvert glas urðu þeir brosleitari og kátari og fyrr en varði kjaftaði á þeim hver tuska. Ég held að það hafi alls ekki verið ætlunin hjá Þóru að seyðið hefði svona afgerandi hressandi áhrif, en einhver gerjun hafði greinilega átt sér stað í flöskunum á meðan þær stóðu á hillum í búrinu.
En að öllu gamni slepptu þá hef ég verið að prófa mig áfram með krem sem eru ekki jafn feit og Jöklamúsin og meira bólgueyð-andi. Einnig krem, sem er í grunninn komið frá Þóru og er ótrúlega gott á brunasár og til að hreinsa upp óhrein sár sem komið er of-hold í. Þetta krem hefur líka gefið góða raun á sár hjá krabbameinssjúklingum í lyfjameðferð, sem erfitt hefur reynst að græða með hefðbundnum áburði.“

Samhent handverkshjón
Siggi lærði símsmíði um miðjan áttunda ára-tuginn og var símaverkstjóri á Hornafirði frá 1986-2008 en varð þá að hætta að vinna vegna veikinda. Hann tók þá að sinna einu af mörgum áhugamálum sínum, eftir því sem heilsan leyfði, sem er smíðar og ýmiskonar handverk. Gulla hefur alla tíð notað hverja lausa stund til að prjóna og er sérlega af-kastamikil og hugvitssöm. Saman hafa þau hjónin farið með handverk sitt á fjölda hand-verkssýninga víða um land. Kennir þar margra grasa, þó ekki fjallagrös séu, allt frá hefðbundnum lopavettlingum yfir í veiðihnífa með skeftum úr hreindýrshorni.

Sjá nánar um Jöklamús á www.joklamus.is og á Fésbókarsíðunni Jöklamús.

Fleiri fréttir og kynningar úr Rangárþingi ytra má finna í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?