Konungur Fjallanna í bíó

Þessi frétt birtist fyrst á www.sunnlenska.is 

Það var fullt út úr dyrum í Bíóhúsinu Selfossi á sunnudagskvöld þegar heimildarmyndin Konungur fjallanna var frumsýnd. Myndin er ævintýralegt ferðalag með fjallkónginum Kristni Guðnasyni og fjallmönnum í leitum á Landmannaafrétti.

Kristinn hefur gegnt hlutverki fjallkóngs í rúma fjóra áratugi en myndin er afrakstur nokkurra ára vinnu þar sem fjallmönnum var fylgt eftir um króka og kima afréttarins í þremur leitum. Þeir voru margir hverjir mættir á frumsýninguna á Selfossi í kvöld ásamt Kristni og fjölskyldu.

Samhentur og flottur hópur
Framleiðendur myndarinnar eru Áslaug Pálsdóttir og Guðrún Hergils Valdimarsdóttir hjá HeklaFilms og leikstjóri er Arnar Þórisson. Þau þremenningarnir ávörpuðu frumsýningargesti en Áslaug sagði frá því þegar hún var í sveit á Skarði þegar hún var yngri.

„Ég fékk að fara á fjall þegar ég hafði aldur til þökk sé Kristni, sem er einstaklega bóngóður maður. Ég hlakkaði alltaf til haustsins og gat ekki beðið eftir því að komast á fjall. Hugmyndin að gerð myndarinnar var einmitt sú að fanga það ævintýri sem leitir á Landmannaafrétti eru og að gefa áhorfandanum innsýn inn í þann ævintýraheim sem býr að Fjallabaki. Fjallmenn tóku okkur einstaklega vel og það skín í gegn hvað þetta er samhentur og ótrúlega flottur hópur,“ sagði Áslaug.

Almennar sýningar á myndinni eru í Bíóhúsinu Selfossi og Laugarásbíói.


Kristinn Guðnason fjallkóngur mættur í Bíóhúsið Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Guðrún Hergils Valdimarsdóttir framleiðandi og Arnar Þórisson leikstjóri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Áslaug Pálsdóttir framleiðandi ávarpar frumsýningargesti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?