
Stóri plokkdagurinn var haldinn 27. apríl en þann dag er fólk hvatt til að fara á stúfana og tína rusl í sínu nærumhverfi.
Um 25 manns á öllum aldri mættu til leiks á Hellu í blíðskaparveðri, dreifðu sér um þorpið og tíndu rusl af krafti.
Rótarýklúbbur Rangæinga var okkur til fulltingis. Fulltrúar klúbbsins afhentu poka og hanska og sáu um veitingarnar að plokki loknu; grillaðar pylsur og drykki sem runnu ljúflega niður eftir átökin.
Það voru heiðurshjónin Grétar Hrafn Harðarson og Sigurlína Magnúsdóttir sem stóðu vaktina fyrir hönd Rótarýklúbbsins og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Sveitarfélagið vill hvetja íbúa og ekki síst fyrirtæki til að huga að sorpmálum. Upplagt er að taka með sér ruslapoka í alla göngutúra og tína upp það sem á vegi manns verður. Eins er mikilvægt að fyrirtæki hugi vel að lausamunum sem vilja fjúka frá vinnusvæðum.
Hér má sjá hluta hópsins sem tók þátt og nokkrar svipmyndir frá deginum