Lax úr Eystri-Rangá
Lax úr Eystri-Rangá

Í vorhefti Fréttabréfs Rangárþings ytra birtist grein um helstu vötn og ár í sveitarfélaginu þar sem hægt er að renna fyrir lax og silung. Þau leiðu mistök urðu að Eystri-Rangá var ekki á meðal þeirra sem getið var, en hún hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem ein af betri laxveiðiám landsins.

Meðalveiði síðustu fimm ára í ánni er 4300 laxar á ári en sumarið 2020 veiddust 9070 laxar. Átak hefur verið gert í því síðustu ár að taka stórlax úr ánni í klak. Hefur það skilað þeim árangri að í Eystri Rangá er æ hærra hlutfall aflans stórlax og hefur veiðin að sama skapi aukist fyrr á tímabilinu.

Eystri Rangá er á Suðurlandi í um 100 km fjarlægð frá Reykjavík og rennur rétt vestan við Hvolsvöll. Þetta er um 60 km löng lindá sem á upptök sín við Tindafjallajökul á hálendinu. Hún er hinsvegar fiskgeng um 22 km vegalengd, eða allt að Tungufossi hjá Árgilsstöðum. Eystri Rangá sameinast Þverá um 5 km. austan við ármót Ytri Rangár og Þverár. Bróðurpartur aflans í Eystri-Rangá er sterkur smálax á bilinu 5-7 pund en á hverju ári veiðast laxar í ánni sem eru um og yfir 20 pundin.

Veiðisvæðin í ánni spanna 22 kílómetra frá ósi við Þverá upp að ólaxgengnum fossi á svæði 9. Áin býður upp á mjög fjölbreytta veiðistaði allt frá hæglíðandi breiðum út í stríðari strengi. Flestir veiðistaðir árinnar eru frábærir fluguveiðistaðir sem bjóða upp á fullkomið rennsli. Best fer á að nota tvíhendu þar sem áin er breið en á sumum stöðum er laxinn það nálægt landi að einhenda dugar vel.

Mynd/ Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is

 

www.kolskeggur.is

www.veidistadir.is

www.lax-a.is

 

Umfjallanir og fréttir úr nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins má nálgast hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?