Leikskólinn Heklukot - öðruvísi og skemmtilegt

Ingigerður Stefánsdóttir er nýr leikskólastjóri í Heklukoti. Hún var áður í 18 ár leikskólastjóri hjá Snæfellsbæ og 12 ár hjá Ísafjarðabæ. Nemendur í Heklukoti eru 76. Við spyrjum fyrst um helstu áherslur í skólastarfi.

Vetur og sumar

„Starfsárið er sett upp, annars vegar með vetraráætlun og hins vegar með sumaráætlun,“ segir Ingigerður. „Allskyns hópastarf og inniíþróttir einkenna veturinn en yfir sumarið er meira farið út og í vettfangsferðir. Megináherslur okkar í Heklukoti er að leikskólinn er Grænfána leikskóli og heilsuleikskóli. Nú er verið að innleiða þróunarverkefni leikskólans um Snemmtæka íhlutun – mál og læsi barna. Einnig mun starfsfólkið á næstu misserum kynna sér kvæðan aga og fá námskeið í því.“

 

Covid hefur kennt okkur

- Hefur skólastarfið eitthvað breyst á tímum COVID?

„Já, að einhverju leyti. Foreldrar hafa mjög lítið komið inn á leikskólann og allir atburðir þar sem foreldrar taka þátt hafa fallið niður, t.d. foreldrakaffi. Elsti árgangurinn gat ekki farið í allar þær heimsóknir sem til stóð, t.d. heimsóknir í grunnskólann sem og til eldri borgara. Þegar takmarkanir voru sem mestar var deildum hólfaskipt og starfsmenn og börn af mismunandi deildum hittust eingöngu í útiveru. Þá voru líka margir fundir rafrænir og sumir þeirra hafa haldist þannig.

Sem dæmi þá verður haustþingið okkar í ár rafrænt og eins hefur skólaþjónustan boðið upp á rafræn námskeið og fyrirlestra í kjölfar Covid. Eins hefur verið passað einstaklega mikið upp á handþvott og sprittnotkun hefur aukist verulega. Annars hefur verið reynt að halda öllu eins eðlilegu og hægt er hvað daglega starfið varðar og eins að fræða börnin um veiruna, sérstaklega í upphafi faraldursins. Ég held að við höfum orðið enn sveigjanlegri og útsjónarsamari vegna faraldursins og lært að meta það sem við höfum.“

 

Öðruvísi og skemmtilegt

- Hverjir eru helstu viðburðir í skólastarfinu ?

„Á hverjum föstudegi er reynt að hafa eitthvað skemmtilegt og öðruvísi en hina daga vikunnar. Nýlega var hjóladagur hjá þremur elstu árgöngunum og þá kom lögreglan í heimsókn, skoðaði hjólin og setti miða á þau. Næsta föstudag er ljósmyndadagur hjá okkur og þá eiga allir að koma með eina mynd að heiman af einhverju í uppáhaldi eða eitthvað sem þeim þykir vænt um og segja frá hverjir eru á myndinni og af hverju. Útikennslustofan er heimsótt reglulega af börnunum. Elsti árgangurinn fær tónlistar- og sundkennslu svo fátt eitt sé nefnt. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera. Veturinn leggst mjög vel í okkur, hér eru flottir nemendur og skemmtilegt og gefandi starfsfólk,“ segir Ingigerður Stefánsdóttir, leikskólastjóri.

Ingigerður Stefánsdóttir leikskólastjóri Heklukots.

Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.

 

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?