Mynd: Leikskólinn Laugalandi
Mynd: Leikskólinn Laugalandi

Sigrún Björk Benediktsdóttir er leikskólastjóri Leikskólans á Laugalandi og hefur verið það síðastliðin 15 ár. Sigrún er með B.A. próf í uppeldisfræðum og leikskólakennaramenntun frá Háskóla Íslands. Einnig er hún með diplómu í sérkennslufræðum. Á haustönn verða 36 nemendur við leikskólann í tveimur deildum og 14 starfsmenn í mismunandi starfshlutföllum. Einkunarorð skólans eru: Viska – Virðing – Vinátta, og fléttast þessi hugtök inn í allt skólastarfið.

Leikur og hreyfing
„Leikurinn með öllum sínum fjölbreytileika er megin námsleið barna og er honum því gefið gott rými í dagskipulagi skólans,“ segir Sigrún Björk. „Á Laugalandi er einnig unnið með fjölbreytt námsefni og má þar nefna Blæ sem er vináttuverkefni og forvörn gegn einelti. Hugmyndafræði vináttuverkefnisins endurspeglast í fjórum gildum: Umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki. Þá má nefna bækurnar um Bínu bálreiðu sem fjallar um dúkkuna Bínu og hvernig hún lærir viðeigandi boðskiptafærni, en það teljum við vera undirstöðuatriði fyrir góða líðan í samfélagi með öðrum og frekari námi.

Í nútímasamfélagi teljum við mikilvægt að börn læri að slaka á og ná tökum á hugsunum sínum. Til þess notum við námsefni sem heitir Hugarfrelsi en það hjálpar börnunum til að auka einbeitingu, vellíðan og jákvæða hugsun. Námsefnið byggir á fimm aðferðum: Sjálfstyrkingu, öndun, jóga, slökun og hugleiðslu. Við leggjum líka mikið upp úr hreyfingu bæði úti og inni og erum með skipulagðar ævintýraferðir (útikennsla) og íþróttatíma í íþróttasal skólans. Helsta markmið skólans eru að öllum líði vel en það er grunnforsenda þess að hægt sé að örva alhliða þroska barnanna.“

Tekið á frávikum í málþroska
Ungur nemur, gamall temur, segir máltækið. Víst er að umhverfi leikskólanna hefur mótandi áhrif á börnin og þess vegna hægt að grípa inn í og leiða til betri vegar ef frávik verða.

„Á síðasta skólaári var unnið að þróunarverkefni um snemmtæka íhlutun með áherslu á málþroska og læsi og var verkefnið innleitt smám saman á síðasta ári og gefin út handbók síðastliðið vor fyrir starfsmenn. Megin markmið með verkefninu var að þróa og festa í sessi ákveðin vinnubrögð sem eru til þess fallin að auka gæði leikskólastarfs. Auka þekkingu starfsmanna til að bera kennsl á frávik í málþroska um leið og þeirra verður vart til þess að geta strax byrjað markvissa vinnu til að draga úr frávikunum. Þessari vinnu mun verða fylgt eftir á þessu skólaári.“

Covid 19 elfdi starfsandann
Eins og allir vita þá hefur Covid 19 haft áhrif á allt samfélagið og þar með á leikskólastarfið. Ýmsar reglur hafa verið settar sem hafa snúið að mestu að sóttvörnum; grímuskylda, handþvottur og fjarðlægðartakmarkanir. Eftir að hafa farið í rússíbanareið í gegnum þetta tímabil tel ég að við á Leikskólanum Laugalandi höfum lært margt gott. Við sáum m.a. að börnunum leið betur þegar fækkað var í barnahópum og því reynum við að skipuleggja starfið þannig. Varðandi handþvott og sóttvarnir þá munum við halda því áfram þótt Covid hverfi og þegar litið er til baka þá tel ég að eftir að hafa gengið í gegnum þetta allt saman að þá hafi þetta tímabil eflt samstöðu meðal starfsmanna. Við skólann starfar flottur samhentur hópur, sem hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu. Það er spennandi skólaár framundan og við göngum glöð til verka,“ segir Sigrún Björk Benediktsdóttir, leikskólastjóri.

Nánari upplýsingar um Leikskólann á Laugalandi má finna á vef skólans. Hér. 

Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?