Ljósleiðari - opið hús með þjónustuaðilum

Opið hús laugardaginn 10. Desember að Laugalandi kl. 10-12

„Hvenær fæ ég svo tengingu“ er spurning sem við, aðstandendur verkefnisins, fáum æ oftar? Það er farið að gæta eftirvæntingu hjá íbúum.  Það er fagnaðarefni, blæs okkur byr undir vængi og að við skipuleggjum framkvæmdir á þann hátt að sem flestir fái tengingu sem fyrst.

Unnið hefur verið að verkefninu víðsvegar í sveitarfélaginu undanfarið. Rör í áfanga 4 og 5 eru komin í jörð. Stofnleið í áfanga 3 er komin í jörð. Unnið er á morgum stöðum samtímis við áfanga 1 þessa dagana og rör þess áfanga eru um það bil að verða komin í jörðina.  Næstur í röðinni er áfangi 2. Þá er verið að ganga frá heimtaugarörum inn í hús, ganga frá brunnum og tengiskápum og síðast en ekki síst blása ljósleiðurum í rörin.  Það styttist því í að fyrstu heimilin tengist kerfinu okkar.

Eftir að rörakerfið er tilbúið er ljósleiðari settur í rörin.  Að því loknu fer fram frágangur á tengistöðum (heimilum, sumarhúsum, tengibrunnum) þar á eftir er kerfið mælt upp til að tryggja að það standist þær gæðakröfur sem ætlast er til.  Þegar þessu er lokið geta notendur pantað sér þjónustu um kerfið. Það er gert með því að kynna sér þá þjónustu sem verður í boði og velja þá þjónustu sem hentar hverjum og einum best.

Þjónustuveitur sem ætla að selja internet-, sjónvarps,- og símaþjónustu um kerfið bíða spenntar eftir því sama og íbúar.  En hvaða þjónusta verður í boði á nýja kerfinu ? Þeirri spurningunni svara þjónustuveiturnar enda opnar ljósleiðarakerfi Rangárljóss aðeins hraðbraut fjarskipta heim til notenda. Til þess að gefa þjónustuveitum tækifæri til þess að kynna sína þjónustu verður haldinn kynningafundur þann 10.desember næstkomandi að Laugalandi á milli 10 og 12.

Á fundinum er þjónustuveitum gefinn kostur á að kynna sínar vörur fyrir íbúum. Þetta er kærkomið tækifæri til þess að bera saman það sem í boði er, hitta fulltrúa fjarskiptafélaga og spá í hlutina. Þó svo að einhver tími líði þar til að heimtaugar verða endanlega tilbúnar getur verið gott að fá innsýn í það sem boðið er upp á og átta sig á fjölbreytileika fjarskiptaheimsins.

Við hlökkum til að sjá sem flesta að Laugarlandi.

Fréttin er fengin af www.rangarljos.net og eru þar allar upplýsingar um verkefnið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?