Ljósmyndasýning nemenda í Laugalandsskóla

Laugalandsskóli í Holtum hefur undanfarin ár verið í samstarfi við menntayfirvöld í Norður Dakóta sem tengjast listamanna heimsóknum í skóla. Annaðhvert ár heimsækir listamaður frá Bandaríkjunum Laugalandsskóla og þess á milli fer íslenskur listamaður til Norður Dakota í Bandaríkjunum.

Fyrir tveimur árum síðan kom Chuck Suchy til okkar í Laugalandsskóla og vann að tónlist með nemendum og samdi t.d. nokkur lög með nemendum.  Gerð var heimildamynd um ferð hans hingað og störf hans almennt og má sjá þá mynd á eftirfarandi slóð: http://www.youtube.com/watch?v=R4c3Z_Bn89Q  Þar inn í miðri mynd má sjá kafla þar sem heimsókn hans í Laugalands­skóla er gerð skil.

Í ár fengum við gestakennara í fimmta sinn frá Norður Dakota. Eins og áður sagði eru þetta allt listamenn en hver þeirra hefur unnið með ólíkt efni. Í þetta sinn var það Wayne Gudmundson, ljósmyndari, sem sótti okkur heim. Wayne á eins og nafnið gefur til kynna íslenskar rætur en forfeður Waynes fóru yfir hafið mikla frá Barkarstöðum í Fljótshlíð og því finnst okkur við eiga sérstaklega mikið í honum. Wayne var hjá okkur í viku tíma og kenndi nemendum ljósmyndun og vann með þeim að undirbúningi sýningar á verkum þeirra. Nemendurnir okkar lærðu bæði tæknileg atriði tengd ljósmyndun sem og fagurfræðina. Ljósmyndasýning var svo sett upp þann 20. apríl og sáu margir sér fært að mæta og skoða afrakstur vikunnar. Á sýningunni mátti einnig sjá myndir frá börnum úr Cavalier grunnskólanum í Norður Dakota. En Wayne vann sambærilegt verkefni með þeim skóla. Efnisviður myndanna var skólinn og heimilið og var skemmtilegt að bera saman hvað er líkt og ólíkt í daglegu lífi barnanna hér og í Cavalier. Sýningin fer svo til Bandaríkjanna þar sem hún verður sett upp á nýjan leik og gefst þá börnunum í Cavalier að fá innsýn í daglegt líf okkar.

Hér má sjá fleiri myndir sem teknar voru á ljósmyndasýningu nemendanna.

Ragna Magnúsdóttir,
Grunnskólakennari
B.ed. kennslufræði
ragna@laugalandsskoli.is
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?