Þórdís Dögg Auðunsdóttir eigandi Klukkublóms.
Þórdís Dögg Auðunsdóttir eigandi Klukkublóms.

Hellubúar eru loksins búnir að fá blómabúð í plássið eftir nokkurt hlé. Þann 30. júlí í sumar opnaði blóma- og gjafavöruverslunin Klukkublóm á Þrúðvangi 36a. Eigandi hennar er Þórdís Dögg Auðunsdóttir, sem flutti heim frá Danmörku 2019 eftir 21 árs dvöl þar ytra.

Á reit nr. 1

Klukkublóm er staðsett í elsta hluta þorpsins, nokkurn veginn á þeim bletti þar sem Þorsteinn Björnsson, frumbyggi á Hellu, reisti fyrsta verslunarhúsið 1927. Það má því segja að hún sé á reit nr. 1. Og þótt blómabúðin blasi ekki við frá aðalgötunni þá hefur það greinilega ekki sett strik í reikninginn því viðskiptin hafa gengið vel.

„Jú, ég hafði smá áhyggjur af því að þessi staður væri ekki nægilega miðsvæðis og sæist ekki nógu vel, en fólk virðist ekki láta það aftra sér neitt. Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel þessa fyrstu mánuði og ég er bara mjög þakklát hvað fólk er jákvætt og hefur tekið vel á móti mér hérna,“ segir Þórdís Dögg, sem jafnframt er eini starfsmaður verslunarinnar – enn sem komið er.

„Það var greinilega þörf fyrir blómabúð á þessu svæði, enda ekki neina slíka að finna alla leið frá Selfossi og að Höfn í Hornafirði.“

Matreiðslukona með áhuga á blómum

Þórdís Dögg er ekki með menntun í blómaskreytingum eða garðyrkju, heldur matreiðslu. Blóm og skreytingar hafa hins vegar alltaf verið hennar áhugamál.

„Ég er kokkur að mennt, lærði í Danmörku og starfaði þar við matreiðslu lengst af, á hótelum og krám. Síðast vann ég á barnaleikskóla þar sem var sykurlaus matseðill. Það var bæði skemmtilegt og mjög lærdómsríkt, maður þurfti að hugsa alla matargerð upp á nýtt. Ég flutti svo heim til Íslands þegar móðir mín féll frá árið 2019. Ég fékk vinnu í Sjafnarblómi á Selfossi, en faðir minn býr þar.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á blómaskreytingum, skreyti heimili mitt með blómum og hef alltaf verið með blóm í kringum mig. Svo einn daginn fékk ég bara þessa hugmynd; að það væri kominn tími til að prófa að reka eigið fyrirtæki og auðvitað var blómabúð efst á listanum.“

Blóm gera kraftaverk

„Ég sá að það var engin sérhæfð blómabúð starfandi í Rangárvallasýslu og hvergi á Suðurlandi fyrr en á Höfn. Ég skoðaði möguleikana á Hellu og Hvolsvelli en það var ekki mikið framboð af húsnæði sem hentaði í þetta. Ég auglýsti á samfélagsmiðlum og einn daginn hringdi eigandi Þrúðvangs 36 í mig og bauð mér að líta á þetta húsnæði sem Klukkublómið er í núna. Þetta er ekki stórt, en mér finnst verslunin bara orðin mjög kósý og passleg að stærð fyrir reksturinn eins og hann er núna.

Ég fæ afskorin blóm tvisvar í viku frá Grænum markaði, sem er heildsala í Reykjavík, en blómin eiga hins vegar uppruna sinn í Espiflöt, sem er garðyrkjustöð í Reykholti í Biskupstungum. Annars er ég með allt það helsta sem vænta má í blómabúð: Afskorin blóm og rósir, pottablóm, kort og gjafavöru, reykelsi og sápur, og svo framvegis.

Ég tek að mér allskonar skreytingar: Útfarar- og samúðarskreytingar, með krönsum og þess háttar, blómaskreytingar fyrir brúðkaup, afmæli og í rauninni hvaðeina þar sem fólk vill gleðja eða sýna samúð með blómum. Ég hef til dæmis útbúið blómaskreytingar sem verðlaun á hestamótum, en þá get ég að sjálfssögðu ekki notað sellofon, sem gæti hrætt hestana, heldur nota ég annað hljóðlaust efni til að pakka í. Möguleikarnir eru endalausir, blóm gera oftast kraftaverk,“ segir Þórdís Dögg að lokum.

Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?