19. september 2025
Skiltið við innganginn í Melaskóg, austan Hellu. Grenitré og Hekla í bakgrunni.
Melaskógur er falin náttúruperla í útjaðri Hellu. Þar hafa nemendur Grunnskólans á Hellu gróðursett trjáplöntur árlega frá árinu 1996.
Skógurinn stækkar ár frá ári og nú er þarna upp vaxinn myndarlegur skógur sem er frábær til útivistar. Hann er einnig í næsta nágrenni við Aldamótaskóginn sem er sunnan þjóðvegar.
Gaman er að rölta um skóginn og skoða þann fjölda tegunda sem þar þrífst. Af trjátegundum má finna aspir, birki, greni og furu sem hefur verið plantað en einnig sjálfsáðar víðitegundir eins og gul- og grávíði.
Í Melaskógi má einnig finna bláberja- og krækiberjalyng, hundasúrur, vallhumal, fífla og ýmislegt fleira.






