Menningarsjóður Rangárþings ytra var settur á fót árið 2023 og hefur sveitarfélagið úthlutað úr honum tvisvar á ári síðan.
Markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd sér um að fara yfir umsóknir og úthluta styrkjum hverju sinni en umsóknum fjölgar með hverri úthlutun og greinilegt er að íbúa skortir ekki hugmyndir og þor til að framkvæma.
Menningarsjóðnum er ætlað að styðja við menningarstarf í heimabyggð sem íbúar hafa frumkvæði að og meðal verkefna sem hafa fengið styrk eru tónleikar, leikverk, ljóða- og ljósmyndaverkefni.
Árið 2025 voru alls 1.250.000 kr. til úthlutunar en í ár er upphæðin 2.000.000 kr. eða allt að 1 milljón í hvorri úthlutun. Þessi hækkun mun gera okkur kleift að styðja við enn fleiri verkefni og gaman verður að sjá hvað íbúar eru með á prjónunum.
Opið verður fyrir umsóknir í fyrri úthlutun ársins frá 1. mars til 1. apríl og verður það tilkynnt sérstaklega þegar þar að kemur. Þangað til geta áhugasamir byrjað að móta hugmyndir og minnt er á að öllum er frjálst að leita ráðgjafar hjá markaðs- og kynningarfulltrúa þeim að kostnaðarlausu.
Hægt er að hafa samband í síma 4887000 eða senda póst á ry@ry.is