Minningarsjóður Ólafs Björnssonar

Þessi grein birtist á dfs.is þann 28. nóvember.

Fyrstu skrif um Minningarsjóð Ólafs Björnssonar eru að finna í Skipulagsskrá um sjóðinn frá árinu 1968. Þá koma fulltrúar allra kvenfélaga í læknishéraðinu saman nema frá kvenfélaginu Lóu í Landsveit, sem gekk til liðs við Minningarsjóðinn haustið 1975. Kristín Filippusdóttir á Ægisíðu átti frumkvæði að stofnun hans. Hvati að stofnun sjóðsins var, hve lítið hið opinbera tók þá þátt í kostnaði, þyrftu einstaklingar að leita sér lækninga erlendis. Gat það verið ofviða fólki. Einnig til að minnast hins virta héraðslæknis, Ólafs Björnssonar, sem hafði látist í janúar sama ár á besta aldri.
Á þessum fundi voru lögð drög að stofnun sjóðsins og skyldi markmið hans vera að styrkja á ýmsan hátt heilbrigðis- og sjúkramál fólks í Hellulæknishéraði. Einnig var talað um að yrði vistheimili fyrir aldraða reist í Hellulæknishéraði, skyldi sjóðurinn styrkja það.

Þriðjudaginn 4. nóvember 1969 var fundur haldinn í Barnaskólanum á Hellu að tilhlutan Kvenfélags Oddakirkju. Mættir voru fulltrúar frá Kvenfélagi Oddakirkju, Ólöf Jónsdóttir og Kristín Filippusdóttir, frá Kvenfélaginu Unni, Erla Valdimarsdóttir, frá Kvenfélaginu Sigurvon Lovísa Árnadóttir, frá Kvenfélaginu Einingu Arndís Eiríksdóttir og Kristín Bjarnadóttir, og frá Kvenfélaginu Framtíðinni Valgerður Guðmundsdóttir.
Eitt mál var til umræðu; sjóðsstofnun til minningar um Ólaf heitinn Björnsson, héraðslækni í Hellulæknishéraði.

Framhaldsstofnfundur var haldinn á Ægisíðu mánudaginn 12. janúar 1970. Mættu þar fulltrúar frá sömu kvenfélögum. Voru teknar ákvarðanir um mál er konur vildu að sjóðurinn styrkti.
1. Styrkja skal sjúklinga, sem þurfa að fara til útlanda til læknisaðgerðar.
2. Styrkja skal kaup á sérstökum tækjum til einstaklinga, s.s. hjólastólum, hækjum, gervilimum o.s.frv., sem ekki fást fullir styrkir til annars staðar frá.
3. Styrkja vistheimili fyrir aldraða, verði það reist í læknishéraðinu
Lýst var yfir stofnun Minningarsjóðs Ólafs Björnssonar.
Kvenfélögin lögðu strax fram samtals 37.500 kr. til stofnunar sjóðsins. Ekki átti að veita úr honum fyrr en upphæðin næði 100.000 kr.
Kvenfélögin skyldu kjósa hvert um sig fulltrúa úr eigin röðum í stjórn sjóðsins og skyldu félögin borga 50 kr. af hverjum skuldlausum félaga. Er það endurskoðað öðru hverju. Var talað um að helstu fjáraflanir skyldu vera; basar, tombólur og minningarkort.
Kristín Filippusdóttir á Ægisíðu var kjörinn formaður, var hún það til 2. júlí 1971 er Ólöf Jónsdóttir í Odda tók við. Kristín veiktist síðan um haustið og lést  eftir stutta legu 15. október.

Á næsta fundi 8. apríl 1970 var ákveðið að félögin héldu sameiginlega hlutaveltu, einnig voru lögð fram sýnishorn af minningarkortum og var ákveðið að frú Katrín Elíasdóttir, ekkja Ólafs heitins Björnssonar, skyldi hafa úrslitavald um form þeirra.

Á fundi 15. nóvember 1972 var rætt um að ýta af stað byggingu elliheimilis og var fulltrúum sjóðsstjórnar falið að hreyfa  við því.

Á fundi 22. júní 1973 var rætt um framgang elliheimilisins. Væri helst talað um að byggja í Neslandi við Rangá. Voru stjórnarkonur ekki ánægðar með það og samþykktu þá tillögu að elliheimilið yrði byggt á viðsýnum stað í grennd við Helluþorp.
Á þessum tíma heyrðist talað um að Þorgils á Ægisíðu vildi gefa land undir elliheimili vestan ár, nálægt Bjargi. Það var talið óhentugt, erfitt yrði fyrir starfsstúlkur á Hellu að sækja vinnu svo langt. Þá voru ekki tveir bílar á heimili.

Á fundi 27. júní 1974 var talað um að skriður virtist kominn á elliheimilismálið. Daginn eftir átti að taka fyrstu skóflustunguna að því.
Á þessum fundi var ákveðið að panta jólakort til sölu til ágóða fyrir sjóðinn. Á næsta fundi 25. júní 1975 er talað um að jólakortasalan hafi gengið vel. Jólakortasala hefur verið aðaltekjulind hans síðan ásamt minningarkortunum.

Á fundi 19. júní 1976 er sagt frá því að Minningarsjóðurinn hafi gefið 500.000 kr. til elliheimilisins og tveimur árum seinna færði sjóðurinn því litasjónvarp.

Á næstu árum var elliheimilinu fært það sem sjóðurinn hafði burði til, t.d. 12 rakatæki í herbergin, kvenfélögin hlupu undir bagga með þau vegna kostnaðar.
Einstaklingar gaf Minningarsjóðnum 1.000.000 kr. árið 1980.

Á fundi 28. október 1986 er sagt frá að stjórnarkonur hafi átt fund með oddvitum hreppanna í læknishéraðinu og umræðuefnið var; hvað getum við gert fyrir Lund, svo að fólkið þar fái að lifa áfram í snertingu við það líf, sem það er komið frá. Eftir það var stjórn Minningarsjóðs Ólafs Björnssonar falið að hafa umsjón með að kvenfélögin heimsæktu Dvalarheimilið reglulega og hefur verið svo síðan. Er farið a.m.k. mánaðarlega yfir vetrartímann og hefur hvert kvenfélag sinn mánuð.

9. júní 1988 kemur sú hugmynd frá Kvenfélaginu Framtíðinni að kvenfélögin skyldu halda hátíð til styrktar Lundi og var hún haldin sunnudaginn 5. nóvember 1989 á Laugalandi. Tókst hún afburða vel, kvenfélögin stóðu saman sem einn maður og hreinn ágóði af þeirri hátíð var 400.000 kr. Bætti sjóðurinn 600.000 kr. við og voru 1.000.000 kr. færðar stjórn Lundar við hátíðlega athöfn á heimili Guðríðar og Arnþórs á Hellu.

Árið 1994 kaupir sjóðurinn öll sjúkrarúm á hjúkrunardeildina á Lundi. Kostuðu þau án vsk. 1.100.257 kr. Voru það stoltar kvenfélagskonur sem mættu við vígslu Hjúkrunardeildarinnar það ár.   

Kapellan á Lundi var vígð árið 2002. Minningarsjóðurinn gaf 34 stóla í hana, kostuðu þeir hátt í milljón krónur.

Tvö sjúkrarúm voru gefin Lundi árið 1982 með stuðningi frá kvenfélögunum. Á næstu árum ýmislegt s.s. vigt, hárþurrka, stóll til notkunar við fótsnyrtingu, þrekhjól, hárþvottabakki með fæti, garðhúsgögn 1991, sólpalli var komið upp við Lund á vegum sjóðsins og aftur voru keypt garðhúsgögn eftir aldamótin. Lyftarar fyrir fólk hafa verið keyptir, lazy-boy stólar, öflugt þrekhjól með stuðningi fyrir bak,( brottfluttur héraðsbúi færði sjóðnum fé til þess) súrefnissíur, loftdýnur o.fl.

Einstaklingar í læknishéraðinu hafa verið styrktir í veikindum og erfiðleikum með myndarlegum upphæðum.

Kvenfélögin í Hellulæknishéraði selja margvísleg jólakort til styrktar sjóðnum einnig eru þau seld hjá Gurrý að Þrúðvangi 27, Hellu. Sími 487 5817 eða 691 9189. Einnig er  Gurrý með minningarkort til styrktar sjóðnum. Allir eru velkomnir.

Svanborg Jónsdóttir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?