Brúin yfir Ytri-Rangá við Hellu var skreytt með fánum sveitarfélagsins í tilefni af 90 ára afmæli He…
Brúin yfir Ytri-Rangá við Hellu var skreytt með fánum sveitarfélagsins í tilefni af 90 ára afmæli Hellu.

Íbúahátíð Rangárþings ytra - Töðugjöldin, fóru fram í einmunablíðu dagana 18-20 ágúst s.l. Að þessu sinni var þess einnig minnst að 90 ár eru liðin síðan Þorsteinn Björnsson hóf verslunarrekstur á skika sínum við Ytri-Rangá sem hann kallaði Hellu og lagði þannig grunninn að því blómlega þorpi sem fólk þekkir í dag. Dagskrá Töðugjaldanna var óhemju skemmtileg og mikill fjöldi fólks sem tók þátt – heimamenn sem brottfluttir og aðrir gestir. Boðið var upp á leiksýningu, tónlistarflutning af ýmsu tagi, leiktæki af mörgum gerðum, markaðsstemmingu og veitingar af ýmsum gerðum. Þá var hið ómissandi „Þorparölt“ á föstudagskvöldinu þegar íbúar bjóða heim, hittast og gleðjast. Dagskrá laugardagsins hófst senmma morguns með því að Stolzenwaldbræður frá Hellu fluttu Gunnarshólma með tilþrifum í s.k. Fjóshelli að viðstöddu fjölmenni. Að því búnu var öllum íbúum og gestum boðið til morgunverðar í Íþróttahúsinu í umsjá kvennakórsins Ljósbrár. Varð þar úr mikill mannfagnaður og fullt út úr dyrum en það voru fyrirtækin á svæðinu sem lögðu í púkk og mikil ánægja með. Var þar einnig í boði gríðarleg afmælisterta í tilefni 90 ára afmælis Helluþorps. Einn af hápunktum dagsins var söguganga um Hellu undir leiðsögn Unnar Þórðardóttur og Ernu Sigurðardóttur og með aðstoð hins eina sanna Sigga Kalla. Var það mikil strolla sem gekk í góða verðinu og rifjaði upp gamlar sögur um húsin í gamla hluta Hellu. Í tilefni af afmælinu voru einnig settar upp myndasýningar með gömlu ljósmyndum og kvikmyndum. Það var síðan líf og fjör allan daginn með markaðsstemmningu, hoppuköstulum að öllum gerðum, fótboltakeppni, fegurðarsamkeppni gæludýra o.fl. Deginum lauk síðan með glæsilegri kvöldvöku undir stjórn Felix Bergssonar þar sem m.a. Áttan kom sá og sigraði, ótrúlegri flugeldasýningu í umsjá Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og loks þrumuballi í Reiðhöllinni þar sem Í svörtum fötum spiluðu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?