
Á síðasta fundi framkvæmda- og eignanefndar var rætt um hvað betur megi fara í umhverfis- og ásýndarmálum í sveitarfélaginu.
Því miður hefur fjöldi númerslausra bíla á einkalóðum í þéttbýli aukist. Bendir nefndin á að hægt er að koma þeim í geymslu á sérstökum geymslusvæðum eða til förgunar á Strönd þannig að ekki þurfi að grípa til kostnaðarsamra aðgerða.
Starfsmenn sveitarfélagsins hafa þegar tilkynnt Heilbrigðiseftirlitinu um númerslausa bíla og lausamuni sem eru á lóðum sveitarfélagsins og verður fljótlega gripið til álíminga ef eigendur bregðast ekki við og fjarlægja viðkomandi eignir.
Reglur heilbrigðiseftirlitsins um lóðahreinsun og númerlausar bifreiðar má nálgast með því að smella hér.
Nefndin hvetur íbúa og fyrirtæki einnig til að huga að og snyrta umhverfi sitt nú þegar sumarið er gengið í garð.
Bent er á að klippa þarf hekk og annan gróður sem nær inn á eða hindrar aðgang að gangstéttum.
Þjónustumiðstöðin vill einnig minna á að í maí stendur til að hefja götusópun. Tilkynningar þess efnis verða sendar út þegar þar að kemur og hvetjum við íbúa til að bregðast vel við og skapa rýmið sem þarf til að hægt sé að sópa allar götur vel og vandlega.
Gott er að íbúar byrji sem fyrst að huga að því að skapa pláss fyrir götusópunina.