Ný skoðanakönnun og niðurstöður síðustu könnunar

Ný skoðanakönnun hefur verið sett í gang á viðeigandi svæði á heimasíðunni(hægri hluta forsíðu) og um leið eru niðurstöður síðustu könnunar birtar. Spurning síðustu könnunar var "Hefur þú nýtt þér þjónustu Strætó á Suðurlandi síðan ferðir hófust um síðustu áramót?". 51 atkvæði var skráð og var það heldur lakari þátttaka en í síðustu könnun þar á undan þar sem 95 atkvæði voru skráð. Könnunin um Strætó var í birtingu frá 10. maí til 31. maí eða í um 3 vikur.

Spurningin sem sett er fram í nýrri skoðanakönnun er svohljóðandi: "Vilt þú að sett verði varanlegt yfirborð á göngustíginn meðfram Ytri-Rangá? (Á milli Brennu og Árhúsa)".

  • Smellið hér til að taka þátt!

Hugmyndir eru uppi hjá forsvarsmönnum sveitarfélagsins að setja varanlegt yfirborð á göngustígin meðfram Ytr-Rangár og tvinna það saman við nauðsynlegar fráveituframkvæmdir en varanlegt yfirborð merkir að sett yrði þannig yfirborð að notendur hjólastóla, barnakerra, reiðhjóla og annars búnaðar kæmust auðveldlega ferða sinna á þessari leið. Leiðin sem um ræðir er um 800 metra löng.

Eftirfarandi var birt í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 þessu tengt:

"Gert er ráð fyrir fjármagni til fjárfestingar, þ.e. uppsetningu, tengingu 5 s.k. yfirfallsbrunna við skólphreinsistöðina sem koma í veg fyrir skólpmengun sem hlýst af dælum sem stíflast af ýmsum ástæðum. Þessu fylgir talsvert rask við árbakkann, og nauðsynlegt að ganga frá göngustígnum svo sómi sé af, en betri göngustígur bætir aðgengi ferðamanna. Í Eignasjóði er gert ráð fyrir fjármagni í frágang göngustígs sem þessu verkefni tengist. Sótt var um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna göngustígaverkefnisins. Leitað hefur verið eftir því við umhverfisráðuneytið að greiddur verði út styrkur vegna fráveituverkefnisins en Fráveitunefnd hafði úthlutað sveitarfélaginu styrk sem til útgreiðslu átti að koma 2007 en aldrei var greiddur."

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?