Við Ytri-Rangá fyrir sunnan Hellu.
Við Ytri-Rangá fyrir sunnan Hellu.

Út er komin skýrsla um ferðamenn í Rangárþingi ytra 2008-2017 sem Rangárþing ytra lét gera og var það Rannsóknir og Ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf sem vann skýrsluna. Skýrslan hefur verið kynnt í atvinnu- og menningarmálanefnd, sveitarstjórn og á vettvangi Slagkrafts - samráðsfunds ferðaþjónustunnar í Rangárþingi ytra. 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér. 

 

Helstu niðurstöður

Erlendir ferðamenn í Rangárvallasýslu

Áætlað er að 1.381 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið í Rangárvallasýslu árið 2017 en 230 þúsund árið 2008, sem er sexföldun. Þetta þýðir að 69% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 komu í Rangárvallasýslu en 46% þeirra árið 2008. Samkvæmt því hefur Rangárvallasýsla aukið hlut sinn um 50% tímabilinu.1 Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum gestum sem komu í sýsluna hafi fjölgað úr 167 þúsund árið 2008 í 569 þúsund árið 2017, eða 3,4 falt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrargestum í sýslunni mikið meira á sama árabili, úr 63 þúsund í um 812 þúsund, eða 13 falt. Þessar niðurstöður sýna ótvírætt að ferðamannatíminn í Rangárvallasýslu hefur lengst jafnt og þétt og að nú koma ferðamenn þangað einnig í miklu mæli allt árið. Ferðaþjónusta er því orðin öflug heilsársatvinnugrein á svæðinu.
Áætlað er að af 1.381 þúsund erlendum gestum á láglendi Rangárvallasýslu árið 2017 hafi 458 þúsund gist þar (33%), að jafnaði í 1,6 nætur, en 923 þúsund verið dagsgestir (67%). Um 40% sumargestanna gistu þar og um 29% vetrargesta. Því eru erlendar gistinætur á láglendi sýslunnar áætlaðar um 713 þúsund árið 2017. Þar við bætast áætlaðar 60-70 þúsund gistinætur á hálendi sýslunnar. Alls eru erlendar gistinætur í Rangárvallasýslu því áætlaðar 770-780 þúsund 2017, eða um 6% af öllum gistinóttum erlendra ferðamanna á Íslandi það ár (alls áætlaðar um 12,9 milljónir).
Áætlað er að af erlendum gestum á láglendi Rangárvallasýslu árið 2017 hafi 413 þúsund verið búsettir í Norður-Ameríku (30%), 204 þúsund í Mið-Evrópu (15%), 158 þúsund í Suður-Evrópu (11%), 143 þúsund á Bretlandseyjum (10%), 82 þúsund á Norðurlöndunum (6%), 52 þúsund í Benelux löndunum (4%) og 329 þúsund komið staðar frá (24%) - þarf af um helmingur frá Asíu.

Erlendir ferðamenn að Hellu, nágrenni Heklu og Þykkvabæ

Áætlað er að árið 2017 hafi 433 þúsund erlendir ferðamenn haft einhverja viðkomu á Hellu en 93 þúsund árið 2008, sem er 4,6 földun. Þetta þýðir að 22% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 höfðu einhverja viðdvöl á Hellu en 18-19% þeirra árið 2008. Árið 2008 komu 62% erlendra gesta á Hellu þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 38% hina níu mánuði ársins. Árið 2017 var hlutfall sumargesta þar hins vegar komið niður í 37% en vetrargesta upp í 63%.
Áætlað er að 60-70 þúsund erlendir ferðamenn hafi lagt leið sína nærri Heklu árið 2017, þar af hafi flestir farið Landveg en aðrir fram og til baka um vegi austan Ytri-Rangár.
Þá er áætlað að um 54 þúsund erlendir ferðamenn hafi lagt leið sína um Þykkvabæ árið 2017.

Erlendir ferðamenn að Landmannalaugum og öðrum hálendisstöðum.

Áætlað er að árið 2017 hafi 144 þúsund erlendir ferðamenn komið í Landmannalaugar en 68 þúsund árið 2008, sem er rúmlega tvöföldun. Þetta þýðir að um 7% ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 komu í Landmannalaugar en 14% erlendra ferðamanna hér á landi árið 2008. Samkvæmt því hafa Landmannalaugar misst helming hlutdeildar sinnar af ferðamönnum til Íslands á tímabilinu. Árið 2008 komu 87% erlendra ferðamanna í Landmannalaugum þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 13% hina níu mánuði ársins. Árið 2017 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður 75% en vetrargesta upp í 25%.
Þá má áætla að um 30 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið við í hálendismiðstöðinni í Hraun-eyjum árið 2017, 11 þúsund komið í Nýjadal sumarið 2017 og 4 þúsund í Veiðivötn sama sumar.

Innlendir ferðamenn í Rangárvallasýslu og Rangárþingi ytra

Kannanir RRF benda til þess að árin 2008 og 2009 hafi a.m.k. 55% Íslendinga farið eitthvað um Rangárvallasýslu. Árið 2010 benda kannanir hins vegar til þess að það hlutfall hafi farið niður í um 40% vegna gossins í Eyjafjallajökli. Með tilkomu Landeyjahafnar sem náði sínu fyrsta heila rekstrarsumri árið 2011 er hins vegar áætlað að hlutfall Íslendinga sem fóru eitthvað um Rangárvallasýslu hafi hækkað í 60% eða ríflega það árin 2011-2017.
Áætlað er að 32-35% landsmanna hafi haft einhverja viðdvöl á Hellu á árunum 2008-2017. Þá fóru 6,5-8,5% landsmanna í Landmannalaugar hvert af þessum árum.

Árið 2017 er áætlað að 195 þúsund Íslendingar hafi lagt leið sína um Rangárvallasýslu, 116 þúsund haft viðkomu á Hellu, um 50 þúsund komið nærri Heklu, um 45 þúsund farið um Þykkvabæ, 24 þúsund komið í Hrauneyjar, 20 þúsund í Landmannalaugar, 10 þúsund í Veiðivötn og 7 þúsund í Nýjadal á Sprengisandsleið.
Allir ferðamenn í Rangárvallasýslu og Rangárþingi ytra
Áætlað er að fjöldi gesta í Rangárvallasýslu hafi rúmlega fjórfaldast á tímabilinu 2008 til 2017, úr 386 þúsund í 1.576 þúsund manns. Þá er talið að Íslendingar hafi verið 41% gesta þar árið 2008 en erlendir ferðamenn 59%. Árið 2017 er hins vegar áætlað að erlendir ferðamenn hafi verið í 88% gesta en Íslendingar 12%.2

Jafnframt er áætlað að 550 þúsund ferðamenn hafi haft einhverja viðkomu á Hellu árið 2017, 164 þúsund farið í Landmannalaugar, 115 þúsund komið nærri Heklu, 99 þúsund farið um Þykkvabæ, 54 þúsund haft viðkomu í Hrauneyjum, 18 þúsund í Nýjadal og 14 þúsund í Veiðivötnum. Erlendir ferðamenn voru samkvæmt könnunum RRF í yfirgnæfandi meirihluta gesta í Landmannalaugum árið 2017 (88%) og á Hellu (79%) og miklum meirihluta í Nýjadal (61%) Hins vegar var mjórra á munum í Hrauneyjum og Þykkvabæ en Íslendingar í miklum meirihluta í Veiðivötnum (72%).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?