Nýr Goðasteinn kominn út

Líkt og árvisst er kemur Goðasteinn út fyrir jólin.

Í Goðasteini er að finna samansafn af fróðleik úr héraði m.a. listamann Goðasteins, Endurreisn Oddastaðar eftir Friðrik Erlingsson, áhugavert efni frá Þórði Tómassyni, Hófspor og hestagötur, Minningarbrot frá Múlakoti ásamt annálum sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu fyrir árið á undan.  

Hér má lesa formála Goðasteins í ár.

--

Fylgt úr hlaði

Sæmundur á selnum prýðir forsíðu Goðasteins að þessu sinni. Ljósmyndin er af frægri styttu Ásmundar Sveinssonar, sem stendur á efstu brún í kirkjugarðinum í Odad á Rangárvöllum. Stærri útgáfa af styttunni er á lóð Háskóla Íslands.

Á vef Listasafns Reykjavíkur segir um styttuna meðal annars: „Myndefnið sækir Ásmundur í þjóðsöguna um Sæmund fróða: „Þegar þeir Sæmundur, Kálfur og Hálfdan komu úr Svartaskóla, var Oddinn laus, og báðu þeir þá allir kónginn að veita sér hann. Kóngurinn vissi dável, við hverja hann átti, og segir, að sá þeirra skuli hafa Oddann, sem fljótastur verði að komast þangað. Fer þá Sæmundur undir eins og kallar á kölska og segir: „Syntu nú með mig til Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væti kjóllafið mitt í sjónum, þá máttu eiga mig.“ Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í Saltaranum. Voru þeir eftir lítinn tíma komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum, svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands. Með þessu varð kölski af kaupinu, en Sæmundur fékk Oddann“ (Sigurður Nordal: Þjóðsagnabókin II).“

Þorri Íslendinga þekkir Sæmund fróða frá fornu fari af þjóðsögum í þessum dúr. Sögurnar eru margar um samband hans við kölska og yfirburði Sæmundar í samskiptum þeirra, og meint fjölkynngi hans og nám í hinum dulúðuga Svartaskóla. Vart fer á milli mála að Sæmundur hefur verið vinsæll hjá alþýðu og talinn góður maður, einskonar Hrói höttur Íslendinga.

Minna er til af raunheimildum um höfðingjann, prestinn og mennta- og fræðimanninn Sæmund Sigfússon í Odda. Þeim fjölgar sem telja að hann hafi verið einn mesti áhrifamaður landsins á sinni tíð; í menntamálum og pólitík. Nokkrir taka svo djúpt í árinni að telja hann vanmetnustu persónu Íslandssögunnar. Áhugi fólks á vægi Odda og Oddaverja í sögu okkar og menningu er að aukast. Er það ekki síst fyrir þrautseigju Oddafélagsins, sem hefur haldið merkinu á lofti. Ástæða er til að kynda undir þeim áhuga. Rangæingar eiga þar hugsanlega stærri fjársjóð en þeir hafa almennt leitt hugann að. Ég hvet alla til að lesa grein Friðriks Erlingssonar í Goðasteini, Endurreisn Oddastaðar, og fylgjast vel með framvindu fornleifarannsókna í Odda á næstu árum. Vísbendingar eru komnar fram um merkar fornminjar þar í jörðu.

Að lokum óska ég Rangæingum árs og friðar

Jens Einarsson, ritstjóri

 --

Hægt er að skrá sig í áskrift að Goðasteini og eins kaupa stök eintök hjá KPMG/Fannberg á Hellu. Hægt er að koma í KPMG/Fannberg að Þrúðvangi, hringja í síma 5456227 eða senda póst á gtomasdottir@kpmg.is . 

Fyrir áskrifendur kostar hann 5.450 kr. 

Fyrir aðra kostar hann 6.000 kr. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?