Nýsköpun í Landsveit - 128 m.y.s.

Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir
Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir

Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir sauðfjárbóndi í Skarði í Landsveit fékk á dögunum styrka frá SASS til vöruþróunar og hönnunar á vörum úr íslenskri ullarvoð. Hún hefur þegar hafið sölu á ullarnærfötum og herðaslá, og fleiri hugmyndir eru í þróun. Berglind er búfræðingur frá Hólaskóla 1996, stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands 1998 og Búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 2001. Hún er gift Erlendi Ingvarssyni, sauðfjárbónda í Skarði, og eiga þau þrjú börn.

Föðurlandið endurhannað

Enginn fatnaður er eins öruggur að halda hita á fólki og sá sem unninn er úr íslensku sauðfjárullinni. Gamla góða föðurlandið er hins vegar að verða ófáanlegt, kannski vegna þess að mörgum finnst óþægilegt að hafa það næst sér. En nú lítur út fyrir að komin séu fram nærföt úr íslenskri ull sem ekki stinga

„Margir fjallmenn á Landmannaafrétti ganga í heimaprjónuðum ullarnærfötum, sem kemur sér vel í slarkinu sem getur orðið í fjallferð því veður eru misjöfn á fjöllum og því mikilvægt að vera vel búinn. Það var kona í sveitinni sem prjónaði ullarnærföt á fjallmennina en sökum aldurs er hún hætt að prjóna. Ullarnærföt bónda míns voru því farin að slitna og hann bað mig að finna leið til þess að gera ný ullarnærföt fyrir sig. Upphaflega hugmyndin mín var að láta útbúa ullarband úr haustull af okkar eigin lömbum og prjóna ullarnærföt á prjónavél. Það gekk hins vegar ekki upp, það náðist ekki fram sú mýkt sem þarf í bandið.

Í ársbyrjun 2020 fór ég til fundar við Pál Kr. Pálsson í ullarframleiðslufyrirtækinu Varma og lýsti fyrir honum hugmyndum mínum. Páll er mikill áhugamaður um vörur úr íslenskri ull og hefur mikla trú á íslensku ullinni. Hann sagði mér frá nýju lambsullarbandi sem Varma í samstarfi við Ístex er búið að þróa. Ístex framleiðir ullarband úr íslenskri lambsull og Varma prjónar svo lambsullarvoð úr því. Ullarvoðin er svo ýfð, sem gerir hana enn mýkri.

Páll velur frá hvaða bæjum lambsullin er tekin og hann ætlar að láta nýta lambsullina okkar frá því í haust í ullarband til að prjóna lambsullarvoð ásamt ull frá öðrum bændum. Ég kaupi svo lambsullarvoðir af Varma og sauma ullarvörur úr þeim.“

128 m.y.s

„Ég hef lagt mesta áherslu á hin gömlu og góðu íslensku ullarnærföt, sem hafa gengið undir nafninu föðurland í gegnum tíðina, en hef útfært þau á nýjan hátt. Ég hanna þau og sauma sjálf úr íslensku lambsullarvoðinni. Ullarnærfötin eru frábær innanundir svokallaða skel, best að vera í þeim næst sér og skel utanyfir og þá verður manni einfaldlega ekki kalt í slarki við smalamenskur eða aðra iðju upp til fjalla að hausti eða vetri. Björgunarsveitarfólk sem er að sérþjálfa hunda hefur aðeins verið að prófa ulllarnærfötin og líkað vel, til dæmis við hundaþjálfun upp á jöklum. Einnig eru ullarnærfötin mjög góð fyrir göngufólk. Ég nota þau mikið sjálf í gönguferðir þegar kalt er í veðri. Það er mikill kostur við íslensku ullarnærfötin að þau halda fólki þurru þrátt fyrir að það svitni eða blotni. Náttúrulegir eiginleikar íslensku ullarinnar eru einstakir hvað þetta varðar það má segja að hún hafi þennan kost sérstaklega umfram innfluttan ullarnærfatnað, sem er heldur ekki eins hlýr en ágætur til síns brúks.

Ég er einnig að sauma ullarkraga úr voðinni, ullarslár og peysur. Einnig hef ég verið að prófa að sauma pils fyrir göngufólk og hlaupara. En svo á ég auðvitað eftir að þróa verkefnið áfram og ef til vill fleiri vörutegundir. Hef verið að bjóða upp á sauðalitina, hvítt, grátt og svart. Vörumerkið fyrir ullarvörurnar mínar er: 128 m.y.s sem er skýrskotun í 128 metrar yfir sjávarmáli.“

Sérsaumar á hvern og einn

Ullarnærfötin frá 128 m.y.s eru fyllilega samkeppnishæf í verði við innflutt ullarnærföt, og auðvitað vitum við Íslendingar að það er ekkert annað efni sem getur keppt við íslensku ullina í einangrun gegn kulda. En hvar er hægt að kaupa vörurnar, eru þær komnar í búðir?

„Það er best að hafa beint samband við mig. Í rauninni sérsauma ég á hvern og einn, hvort sem það eru nærföt, kragar eða slár. Ég er ekki ennþá búin að setja upp heimasíðu fyrir verkefnið en vonandi styttist í það,“ segir sauðfjárbóndinn og hönnuðurinn Guðlaug Berglind að lokum.

 

Sumarliði Erlendsson og Helga Fjóla Erlendsdóttir í endurhönnuðu föðurlandi.

Þessi pistill birtist í fréttabréfi Rangárþings ytra sem má nálgast hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?