Oddafélagið 25 ára 1. desember

Oddi á Rangárvöllum. Vagga íslenskrar menningar.

- Endurreisn á öldinni sem líður.

 

Oddafélagið, samtök áhugamanna um endurreisn fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum, var stofnað fullveldisdaginn 1. desember 1990.  Það verður því 25 ára 1. desember 2015. 

Fyrsta desember 2015 verða liðin 25 ár frá stofnun Oddafélagsins, samtaka áhugamanna um endurreisn fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum.  Það var stofnað í Odda fullveldisdaginn 1. desember 1990.  Mikið vatn er til sjávar runnið, margir fundir hafa verið haldnir og málþing, og ýmsu fleiru til leiðar komið.

Meginverkefni Oddafélagsins er að minna þjóðina á Odda á Rangárvöllum, merka sögu staðarins og möguleikum þar og umhverfis hann til eflingar menningu og menntun í Rangárþingi.  Félagar í Oddafélaginu hafa líka talið það þjóðþrifamál að efla Odda.  Það væri málefni sem stjórnvöld og þjóðin öll ætti að aðhyllast og styðja með ráðum og dáð til að draumur um glæsta framtíð sem fortíð staðarins gæti ræst.

Fortíð og framtíð                                    

Oddi á Rangárvöllum er sögufrægur staður.  Þar bjuggu Oddaverjar, ein merkasta ætt þjóðveldisaldar.  Þeirra á meðal voru Sæmundur fróði Sigfússon (1056 – 1133), lærðasti maður á landinu um sína daga, og sonarsonur hans, Jón Loftsson (1124 - 1197 ), voldugasti höfðingi á Íslandi.  Hjá Jóni ólst upp Snorri Sturluson (1178 - 1241), sagnaritari og lögsögumaður,  sem telja má frægasta Íslending fyrr og síðar.  Allar aldir síðan var Oddi eftirsóttur staður og bjuggu þar ýmsir nafntogaðir prestar, en kunnastur þeirra er þjóðskáldið sr. Matthías Jochumsson (1835 – 1920).

En Oddi á Rangárvöllum hefur fleira til síns ágætis.  Hann er á miðju Suðurlandi og víðsýni af Gammabrekku í Odda mikið.  Blasir þar fjallahringur undirlendisins fagurlega við í heiðskíru veðri.  Oddi er því vel í sveit settur fyrir miðstöð fræða og fræðslu í framtíðinni til gagns og ánægju heimamönnum og gestum og gangandi.

Oddafélagið vinnur að því að vekja áhuga á Odda í fortíð og framtíð. Um 100 manns eru í félaginu og eiga Oddafélagar heima víðs vegar á landinu, einstaka erlendis, en flestir eru í Rangárþingi og á höfuðborgarsvæðinu.  Árlegt málþing, Oddastefna, er haldið með fyrirlestrum um sögu og náttúru, flest um Rangárþing en annars um allt milli himins og jarðar. Flest erindanna hafa birst í Goðasteini, héraðsriti Rangæinga.

Unnin verk og framtíðarsýn

Oddafélagið hefur stuðlað að framgangi ýmissa framkvæmda, svo sem útsýnisskífu á Gammabrekku í Odda í samvinnu við Oddasókn og í samvinnu við Háskóla Íslands uppsetningu á afsteypu af styttu Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara af Sæmundi á selnum.  Afsteypan prýðir hólinn fyrir ofan Oddakirkju.  Hugmyndir um framtíðarumhverfi Odda hafa verið ræddar á fundum í félaginu. Ein hugmyndanna nefnist "Sæmundarvellir".

Í grein, "Sæmundarvellir umhverfis Odda á Rangárvöllum", sem birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2010, bls. 17, er lýst í örstuttu máli tillögu að fræðasetri á sléttlendinu umhverfis Oddastað. Kynning á henni hefur staðið yfir og fengið góðar undirtektir. 

 

Atvinnu- og menningarmálanefnd Rangárþings ytra ályktaði á fundi 22. júní 2011 um erindi Oddafélagsins varðandi Sæmundarvelli:

“Í erindinu (Oddafélagsins) kemur fram að sveitarstjórn er hvött til að leggja áherslu á verndun svæðis umhverfis Odda á Rangárvöllum með það í huga að byggja upp framtíðarumhverfi fyrir fræðasetur, Sæmundarvelli sbr. áður sent erindi frá félaginu. Með erindinu er ekki átt við að krafist verði breytinga á því sem þarna er nú fyrir hendi, en allir sem nærri koma yrðu hvattir til að taka þátt í því að hefja hinn sögufræga stað aftur til vegs og virðingar.
Sveitarstjórn óskar eftir því við skipulags- og byggingarfulltrúa að hann skili inn greinargerð til sveitarstjórnar vegna þeirra hugmynda sem fram koma í erindinu, að höfðu samráði við landeigendur og hagsmunaaðila, svo hægt sé að taka afstöðu til þess.
Nefndinni lýst vel á verkefnið og styður það heilshugar."

 

Stefnt að þáttaskilum


Oddafélagið hefur alla tíð notið stuðnings margra, sveitarstjórnar Rangárþings ytra, héraðsnefndar, Oddasóknar og sóknarprestanna í Odda.  Þá hefur Landgræðsla ríkisins og Byggðasafnið í Skógum tekið rausnarlega á móti fundargestum þegar Oddastefna hefur verið haldin þar á bæjum. Síðast en ekki síst skal nefna fórnfýsi stjórnarmanna og tryggð þeirra og félagsmanna allra og trú á málstaðinn.

Stjórn félagsins hafa lengi skipað Þór Jakobsson formaður, Drífa Hjartardóttir varaformaður, sr. Guðbjörg Arnardóttir ritari, Íris Björk Sigurðardóttir gjaldkeri, Sigrún Ólafsdóttir, Helgi Þorláksson og Birgir Jónsson. Á tímamótum í sögu félagsins verður sú endurnýjun á aðalfundi 17. febrúar nk. að Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra tekur sæti Þórs og sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, nýr sóknarprestur í Odda, tekur við af sr. Guðbjörgu. Þór mun sinna að mestu Oddastefnum áfram og skrifa sögu félagsins.

 

Aldarfjórðungur margra orða fremur en verka er að baki. Á næsta skeiði verður þessu öfugt farið. Ný stjórn og ný vakning mun koma því til leiðar.

 

 

Reykjavík, 19. nóvember 2015

Þór Jakobsson veðurfræðingur,                                                        
formaður Oddafélagins

Grein í Morgunblaðið.


 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?