Öflugur starfsdagur hjá Leikskólanum á Laugalandi

Þriðjudaginn 2. janúar var starfsdagur hjá starfsfólki á Leikskólanum Laugalandi og var hann nýttur til fræðslu fyrir starfsmenn.  Þau Ragnar Ragnarsson og Klara Valgerður Brynjólfsdóttir frá Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu sáu um fræðsluna þennan dag en þetta var dagsnámskeið sem byggt er á bók sem heitir „Uppeldisbókin – að byggja upp færni til framtíðar.“  Á námskeiðinu var farið yfir nokkur mikilvæg atriði í uppeldi eins og hvernig stýra má athygli barna, hvernig auka má sjálfstæði þeirra og bæta samskipti.  Einnig voru kenndar aðferðir til að róa börn og draga úr kvíða þeirra.  Bókin sem námskeiðið byggist á var gefin út af bókaforlaginu Skruddu.  Þessi bók á mikið erindi til foreldra sem ala upp börn í því flókna nútímaþjóðfélagi sem við búum í.  Að fara yfir þetta efni með öllum starfsmönnum var mjög hagnýtt en það er mjög mikilvægt að allir sem vinna með börnin á leikskólanum séu samstíga með þær aðferðir sem notaðar eru við uppeldi barnanna.    Þess má geta að bókin er stútfull af hagnýtum uppeldisráðum og eru áhugasamir foreldrar hvattir til að nálgast bókina og kynna sér efni hennar.

Leikskólastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?