Hella. Mynd: Sólveig Stolzenwald
Hella. Mynd: Sólveig Stolzenwald

Áhersluverkefni eru hluti af byggðaáætlun fyrir Suðurland

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) kalla eftir tillögum að aðgerðum í byggðamálum frá almenningi, samtökum, fyrirtækjum og stofnunum á Suðurlandi. Áhersluverkefni eru þróunarverkefni sem unnin eru af SASS til að uppfylla markmið og megináherslur Sóknaráætlunar Suðurlands, sem er sértæk byggðaáætlun fyrir landshlutann og hluti af byggðaáætlun fyrir landið allt.

Menningarmál eru líka byggðamál

Helstu málefnasvið Sóknaráætlunar Suðurlands eru atvinnumál, nýsköpun og mennta- og menningarmál. Sem dæmi, þá geta áhersluverkefni verið stærri menningarverkefni, samstarfsverkefni fyrirtækja og/eða atvinnulífs, þróunarverkefni á sviði menntamála eða verkefni til eflingar nýsköpunar innan atvinnugreina eða á sviði menntamála. Verkefnin þurfa að vera í samræmi við markmið landshlutans á viðkomandi málefnasviði Hægt er að kynna sér markmiðin á heimasíðu SASS, www.sass.is

Fjölbreytt áhersluverkefni 2017

Til að gefa nánari innsýn í eðli áhersluverkefna kann að vera fróðlegt að skoða heiti áhersluverkefna yfirstandandi árs:

– Brotthvarf úr framhaldsskólum – Sjúkraþyrlur
– Málþing um framtíð iðn-, tækni- og verknáms – Íbúakönnun    
– FabLab verkstæði              – Skaftárhreppur til framtíðar
– Menningarkort – Stofnun Ungmennaráðs
– Félagsleg þolmörk gagnvart ferðamönnum – Kortavefur Suðurlands
– Ráðstefna um sjálfbært Suðurland – Hönnun á fræðsluefni fyrir söfn og sýningar
– Innviðagreining  – Kortlagning umhverfismála     

Hægt er að kynna sér betur þessi verkefni, sem og áhersluverkefni fyrri ára, á heimasíðu SASS.

Hægt að senda inn tillögur á vef SASS

Allir geta sent inn tillögur eða hugmyndir að verkefnum í gegnum vef samtakanna. Þar er einnig hægt er að kynna sér markmiðin sem koma fram í stefnumörkun Suðurlands sem áhersluverkefnum er ætlað að vinna að. Tillögur að áhersluverkefnum sem unnin verða 2018 þurfa að berast fyrir 21. nóvember næstkomandi.

Einnig er hægt að setja sig í samband beint við undirritaðan (thordur@sass.is) eða ráðgjafa og verkefnastjóra á vegum SASS sem veita nánari upplýsingar og geta aðstoðað við mótun tillagna. Nánari upplýsingar um ráðgjafa og verkefnastjóra á vegum SASS er að finna á heimasíðu SASS.

Þórður Freyr Sigurðsson
Sviðsstjóri þróunarsviðs Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?