
Góðan dag kæru sveitungar og gleðilega þjóðhátíð.
Ég heiti Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir og er heiður að fá að tala til ykkar í dag sem nýstúdent.
Ég útskrifaðist sem stúdent af Félags- og hugvísindabraut, listalínu frá Menntaskólanum að Laugarvatni þann 24. maí síðastliðinn.
Þegar ég fékk prófskírteinið í hendurnar og setti upp hvíta kollinn var ég vissulega mjög stolt af því að ég stóð mig vel í námi og sinnti öllu með prýði. En það sem ég er stoltust af og það sem ég tel mikilvægast við menntaskólagöngu mína er það sem ég lærði sem ekki er hægt að meta á skalanum 1 til 10. Hlutir sem maður lærir utan námsbóka og kennslustunda. Það að fá að finna og ákveða sín gildi í lífinu og fá að móta sig sem manneskju er ómetanlegur skóli.
Ég hélt alltaf að það að lifa í núinu væri bara fyrir fólk í hugleiðslu, Yoga snillinga og aðra dugnaðarforka sem vakna snemma á morgnana og hafa allt sitt á hreinu. En nú tel ég mig vita að það að lifa í núinu er að kunna að meta litlu hlutina.
Kunna að meta þegar Dusterinn fyrir framan þig sem keyrði allt of hægt beygir þegar þú heldur áfram, kunna að meta þegar uppáhalds maturinn þinn er í matinn eða að það var fullkomið bílastæði laust fyrir framan búðina.
Eins og John Lennon segir í laginu Beautiful boy ,,Lífið er það sem gerist þegar þú ert upptekin við að gera önnur plön“. Við erum alltaf svo upptekin að hugsa um eitthvað sem gerðist eða á eftir að gerast, segja sögur um hversu skemmtilegt það var þegar vinahópurinn fór í útilegu eða hvað maður er spenntur að fara til útlanda eftir 4 mánuði.
En kostur og galli við lífið er að maður getur ekki spólað til baka. Það koma slæmir dagar en líka góðir. Þegar það koma slæmir dagar verðum við að muna að það koma betri dagar og kunna svo að meta þá góðu.
Ég var í Menntaskólanum að Laugarvatni og fyrir þá sem ekki vita er það heimavistarskóli. Ég ákvað eftir mína grunnskólagöngu að stökkva beint í djúpu laugina, flytja að heiman og ganga í skóla þar sem ég þekkti engan í mínum árgangi. En svo kynntist ég yndislegu fólki sem ég bjó með í 3 ár og nú í dag þekkja þau mig liggur við betur en ég sjálfa mig.
En á þessum 3 árum lærði ég helling á lífið, þú býrð með alls konar fólki sem er með þér allan daginn. Þú vaknar með þeim, ferð í allar máltíðir saman, ferð í skólan með þeim og svo á vistina og ert með þeim í félagslífinu og svo fariði að sofa, og allir vinir þínir eru í herbergjunum í kring. Þú ert bókstaflega með þeim allan daginn.
Ég lærði til dæmis að samskipti og tillitsemi eru númer 1,2 og 3 og þó að það sé erfitt og stundum ekki hægt, þá á maður ekki að pirra sig á einhverju smáræði. Málshátturinn ,,Þolinmæði þrautir vinnur allar“ er mjög sannur og get ég staðfest það eftir mína dvöl á heimavistinni.
Maður verður að vera tillitsamur og hafa mikla þolinmæði því það eru allir að ganga í gegnum sín eigin vandamál. Mér finnst góð lýsing á þessu að það þýðir ekki að flauta á einhvern sem fer ekki af stað þegar það er komið grænt ljós, því þegar maður lendir í þessu sjálfur þá er
augljóslega eitthvað í gangi, það ætlar enginn að stífla umferðina. Það eru bara allir að reyna að gera sitt besta.
Eitt af mínum lífs mottóum og hlutur sem ég þarf oft að minna mig á er að við erum öll mannleg. Það er mannlegt að gera mistök, tala of mikið, misskilja einhvern eða gleyma eitthverju.
Ég var Stallari eða formaður nemendafélagsins í ML og var það mjög erfitt á köflum að halda í þetta mottó en þar lærði ég það líka mest. Auðvitað ætlar sér enginn að missa af fundi eða falla á prófi, svona gerist bara og maður verður að læra af því. Það er í lagi að gera mistök svo lengi sem þú lærir af þeim
Þegar ég skrifaði þessa ræðu fannst mér erfitt að ákveða hvað ég vildi tala um. Eins og bara því ég er með stúdentspróf að ég hafi eitthvað ógurlega merkilegt að segja. En ég held að allir hafi gott af því að fá smá áminningu um þetta.
Því hvet ég alla til að passa að njóta lífsins því lífið er núna og munum að það skipir meira máli að njóta lífsins heldur en að eltast við að sannfæra aðra um að þú sért að njóta þess.
Takk fyrir mig, gleðilega þjóðhátið og ég vona að þig eigið yndislegan dag.