Sigurður Karl Sverrisson, nýstúdent.
Sigurður Karl Sverrisson, nýstúdent.

Ræða nýstúdents, Sigurðar Karls Sverrissonar á 17. júní á Hellu

Gleðilegan þjóðhátíðardag gott fólk, það er algjör heiður að fá að ávarpa ykkur í dag sem nýstúdent í ár.

Það er síðasti dagur skólaársins og ég labba út úr skólanum í síðasta skipti sem nemandi í FSu. Þegar ég settist inn í bílinn fylltist hausinn á mér af minningum mínum í þessum skóla og hversu hratt þessi 3 ár liðu. Ég var 10 ár í grunnskóla og svo allt í einu er framhaldsskólanum lokið eftir 3, það var voða skrýtið hversu hratt þetta leið allt, að vissu leyti eyddi ég hálfri skólagöngunni í Covid sem leiddi til þess að upplifunin var svolítið sérstök, en ég ætla ekki að tala um hversu erfitt það var í Covid, þið hafið öll heyrt nóg um það og eflaust vitið þið það líka.

Ef það er eitt sem situr eftir frá framhaldsskólaárunum er hversu verðmætur tíminn er, þessi þrjú ár liðu mjög hratt og á þessum árum hef ég breyst úr barni yfir í fullorðinn einstakling, það er svakalega mikið sem breytist á þessum árum, það er alveg ótrúlegt.

Þrátt fyrir það að ég á allt lífið framundan þá hef ég samt lært hversu hratt lífið líður, það er svo margt sem tapast þegar maður er að drífa sig í gegnum lífið. Ef maður stoppar ekki af og til og dáist að umhverfinu og lífinu mun lífið líða hjá og maður mun sjá eftir ýmsu.

Svona leið mér eftir fyrstu tvö árin í framhaldsskóla, en sem betur fer áttaði ég mig á því áður en honum lauk. Síðasta árið mitt í framhaldsskóla átti eftir að vera það besta, námið sjálft var ekki endilega það sem gerði það skemmtilegt, reyndar var það alls ekki ástæðan. Loksins ákvað ég að staldra af og til við og líta í kring um mig, þrátt fyrir að árið leið hratt á ég miklu fleiri minningar frá því en öðrum. Ég trúi því að ég er ekki sá eini sem hefur verið að drífa sig í gegnum lífið, margir Íslendingar gera þetta sýnist mér gamlir sem ungir.

Kannski er þetta svona út af veðrinu ef ég á að vera sérstaklega íslenskur og tala um veðrið. Við höfum held ég öll gott af því að staldra aðeins við og anda örlítið, því tíminn líður og hvert augnablik er liðið og við fáum það aldrei aftur. Ég hef áttað mig á því undanförnum árum og vonandi áttið þið ykkur á því líka, það skiptir ekki máli hversu gamall maður er þetta á við um alla. Við höfum öll gott af því að njóta lífsins og ekki þjóta í gegnum það. Þannig þegar ég sit inn í þessum bíl með nýjan kafla í lífinu framundan varð ég spenntur fyrir öllum þeim tækifærum sem biðu mín, en var líka var við það að lifa í augnablikinu og ekki fara að hugsa of mikið um framtíðina.

Takk fyrir mig.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?