Ragnar Ævar Jóhannsson ráðinn sem Heilsu-, íþrótta-, og tómstundafulltrúi

Ragnar Ævar Jóhannsson er 46 ára og er starfandi deildarstjóri við Leikskólann Heklukot og býr með fjölskyldu sinni á Hellu. Ragnar Ævar er menntaður tómstunda- og uppeldisfræðingur frá háskólanum í Linköping í Svíþjóð en hefur einnig lagt stund á Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur veitt forstöðu tómstundaheimili í Svíþjóð og félagsmiðstöðinni Igló í Kópavogi ásamt því að hafa umsjón með unglingastarfi í félagsmiðstöðinni Árseli í Reykjavík og gegna stöðu íþróttastjóra Skautafélags Reykjavíkur. Þá hefur hann sinnt starfi deildarstjóra í leikskólunum Núpi, Hlíðarborg og Heklukoti. Ragnar Ævar hefur einnig starfað við málun, unnið sem verktaki við pípulagnir auk þess að vera háseti til sjós. Hann hefur mikla reynslu og þekkingu á tómstundastarfi og íþróttahreyfingunni, hefur setið í stjórnum íþróttafélaga, þjálfað börn og unglinga og verið virkur í foreldrastarfi íþróttafélaga.

Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Dagskránni og Búkollu og á heimasíðu Rangárþings ytra með umsóknarfrest til 16. apríl 2021. Umsækjendur voru 13 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir öflugum einstaklingi til að bera ábyrgð á íþrótta- og tómstundamálum sveitarfélagsins og hafa forystu um heilsueflandi verkefni á vegum þess. Ennfremur að vera yfirmaður íþrótta- og félagsmiðstöðva í Rangárþingi ytra og vinna að stefnumörkun, þekkingaröflun, þekkingarmiðlun og þróunarstarfi í íþrótta- og tómstundamálum á vegum sveitarfélagsins. Gerðar voru þær menntunar- og hæfniskröfur að umsækjandi hefði háskólamenntun sem nýttist í starfi og byggi að farsælli reynslu af íþrótta- og tómstundastarfi. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru m.a. góðir forystu-, skipulags og samskiptahæfileikar. Ákveðið var af sveitarstjórn Rangárþings ytra að fela Björk Grétarsdóttur oddvita, Ágústi Sigurðssyni sveitarstjóra og Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa að taka viðtöl við umsækjendur. Umsækjendur mættu í viðtöl á tímabilinu 5-17 maí 2021 og hvert viðtal tók allt að 1 klst. Viðtölin fóru fram á Hellu en einnig í gegnum Zoom fjarfundi.

Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfastur til að gegna starfinu væri Ragnar Ævar Jóhannsson. Haft var samband við samstarfsaðila úr fyrri störfum og fékk hann góða umsögn þar til að gegna starfinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?