Rangárþing ytra hlýtur styrk úr Fornminjasjóð

Rangárþingi ytra í samvinnu við Fornleifastofnun Íslands ehf hlaut 500.000 kr styrk úr Fornminjasjóð til þess að þróa og setja upp gönguleið um Hellu sem byggir á fornminjum og verður miðlunin í gegnum snjallforrit sem gestir hlaða niður á snjalltæki. Afrakstur verkefnisins verður kynningarefni um 8-12 valdar fornminjar á Hellu sem gefið verður út í snjallforriti og tengt verður gönguleiðum um þorpið. Snjallforritið virkar á þann hátt að notandinn hleður því í símann sinn og það verður um leið aðgengilegt. Þegar kveikt hefur verið á snjallforritinu mun það biðja um staðsetningu viðkomandi og leiða hann áfram frá þeim stað sem hann er að næsta minjastað og frá þeim stað hringleið aftur á upphafsreit með viðkomu á öllum minjastöðunum. Á hverjum minjastað mun snjallforritið bjóða uppá texta á skjá snjalltækisins og einnig að lesa hann upp fyrir viðkomandi. Einnig verða skýringarmyndir aðgengilegar. Með þessu móti verður menningarsaga Hellu gerð sýnileg íbúum og gestum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?